Viðskipti innlent

Vinnslumet sett á Vopnafirði

Skip HB Granda lönduðu tugum þúsunda tonna af uppsjávarfiski á Vopnafirði á vertíðinni.
mynd/jón Sigurðarson
Skip HB Granda lönduðu tugum þúsunda tonna af uppsjávarfiski á Vopnafirði á vertíðinni. mynd/jón Sigurðarson
Starfsfólk uppsjávarfrystihúss HB Granda á Vopnafirði frysti yfir tuttugu þúsund tonn af síld og makríl á vertíðinni sem lauk um síðustu helgi. Um vinnslumet er að ræða enda er þetta tæplega 27 prósenta aukning frá vertíðinni í fyrra, enda þótt afli skipa félagsins í tegundunum hafi dregist saman um tæplega fimmtán prósent milli ára. Þetta kemur fram í samantekt uppsjávarsviðs HB Granda sem sagt er frá á heimasíðu félagsins.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra hjá Granda, voru nú fryst um 11.500 tonn af makríl og um 8.900 tonn af síld. Mikil aukning varð í vinnslu á makríl milli ára því í fyrra voru fryst 4.800 tonn af makríl á Vopnafirði. Vinnsla á norsk-íslenskri síld dróst hins vegar saman um 2.400 tonn en síldarkvótinn var mun minni í ár en í fyrra. Aflasamdráttur skipa HB Granda á síldveiðunum í ár nam um 7.500 tonnum.

Heildaraflinn á nýliðinni vertíð nam um 37.200 tonnum af síld og makríl en aflamagnið í fyrra var tæplega 43.700 tonn.

- shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×