Skoðun

Eldfjall

Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir skrifar
Manneskjan á krossgötum. Manneskjan andspænis því góða og slæma í eigin lífi. Manneskjan frammi fyrir dauðanum. Manneskjan sem þarf að standa vörð um eigin virðingu og annarra.

Kvikmyndir miðla glímunni við lífið. Áhorfandinn speglar sig í sögunum á hvíta tjaldinu og þær verða vettvangur fyrir eigin vangaveltur um lífsreynsluna. Góð kvikmynd býður til þannig samtals, án þess að dæma eða þvinga.

Góð kvikmynd hvílir á sterkri sögu, trúverðugum leik og góðu handverki. Þetta þrennt kemur saman í kvikmyndinni Eldfjalli undir styrkri stjórn Rúnars Rúnarssonar. Hún fjallar um efni sem er honum hugleikið, eins og sjá má í fyrri verkum Rúnars – hvernig manneskjan bregst við breytingum sem aldurinn færir óhjákvæmilega með sér.

Aðstæður aldraðra, umönnun sjúkra og staða manneskjunnar þegar heilsan bregst er áleitið efni í samtímanum og snerta marga á Íslandi í dag. Aðalpersóna Eldfjalls stendur í þessum sporum og er knúin til að ganga í sig og axla ábyrgð. Hann þarf að horfast í augu við lífshlaupið sitt, það sem gekk vel og hitt sem fór aflaga.

Eldfjall fékk kvikmyndaverðlaun kirkjunnar á nýafstaðinni Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF. Þjóðkirkjan hefur í sex ár verðlaunað myndir á RIFF í flokki nýrra leikstjóra, sem eru ekki bara vel gerðar kvikmyndir heldur eiga sérstakt erindi í glímuna við trúar- og tilvistarspurningar samtímans.

Eldfjall sýnir ástina á sterkan og ágengan hátt. Hún miðlar fegurð og styrkleika í aðstæðum sem eru kreppandi og vonlausar. Hún minnir á mikilvægi nærverunnar í nekt og bjargarleysi manneskjunnar.

Eldfjall knýr til umhugsunar og samtals um mikilvæg mál. Eldfjall á erindi við okkur vegna þess að hún er listaverk sem miðlar von og mannvirðingu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×