Viðskipti innlent

Norðurál íhugar að skila orku vegna nýrrar virkjunar

Mynd/GVA
Forsvarsmenn Norðuráls íhuga að nýta sér ákvæði í orkukaupasamningum og minnka kaup sín á rafmagni, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Ástæðan er sú að fyrirtækið er skuldbundið til að taka við orku úr fimmta áfanga Hellisheiðarvirkjunar, Sleggjunni, sem gangsettur var á laugardag. Þar eru framleidd 90 megawött af rafmagni.

Ákvæðið sem um ræðir snýst um kaupskyldu og nefnist „take or pay“ upp á ensku. Samkvæmt því er fyrirtækið skuldbundið til að kaupa ákveðið magn af orku sem samningar kveða á um, til dæmis 85 prósent. Undir eðlilegum kringumstæðum kaupi fyrirtækið 100 prósent, en við sérstakar aðstæður megi lækka þá tölu niður í umsamda prósentu. Slíkt ákvæði er í samningum við öll þrjú orkufyrirtækin sem sjá Norðuráli fyrir orku: Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur og HS Orku, allt að 85 prósentum.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur ákvörðun ekki verið tekin, en málið er til skoðunar hjá Norðuráli. Ekki mun þó ætlunin að nýta sér að fullu þá heimild til minni orkukaupa sem samningar gera ráð fyrir. Ljóst er þó að orkufyrirtækin munu sitja uppi með umframorku, verði af þessu.

Málsaðilar eru ekki sammála um hvort Norðurál eigi rétt á að skila hluta orkunnar. Samkvæmt heimildum blaðsins líta orkufyrirtækin svo á að ákvæðið eigi aðeins við ef um meiri háttar breytingar eða áföll sé að ræða; það sé svokallað „force majeure“-ákvæði. Óljóst er hins vegar hvort ákvæðið er bundið skilyrðum í samningunum og Norðurál veltir því nú fyrir sér hvort það eigi við í þessu tilfelli.

„Það hefur engin tilkynning borist, ekkert skriflegt. Þeir hafa talað um eitthvað, en ekkert formlegt,“ segir Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku. „Það er bara verið að skoða það ef eitthvað slíkt kemur.“

Samkvæmt samningum ber Norðuráli að nýta orkuna úr fimmta áfanga Hellisheiðarvirkjunar í álverinu á Grundartanga, hafi það ekki not fyrir hana í Helguvík. Þar er ekkert álver risið og ákveðnar breytingar þarf að gera á starfseminni á Grundartanga, eigi að taka við orkunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×