Erlent

Bylting í geimvísindum

Hér sjást tvær vetrarbrautir sem nefnast Loftnetið og eru í 70 milljóna ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Hrafninum. 
mynd/ALMA (ESO/NAOJ/NRAO)/NASA/ESA Hubble Space Telescope
Hér sjást tvær vetrarbrautir sem nefnast Loftnetið og eru í 70 milljóna ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Hrafninum. mynd/ALMA (ESO/NAOJ/NRAO)/NASA/ESA Hubble Space Telescope
Flóknasta stjörnustöð á jörðu niðri, ALMA, var tekin formlega í notkun á dögunum. Mörg þúsund vísindamenn frá öllum heimshornum hafa keppst um að vera meðal þeirra fyrstu sem fá tækifæri til að kanna dimmustu, köldustu, fjarlægustu og best földu svæði alheims með sjónaukanum.

„Þetta eru merk tímamót í sögu stjarnvísinda," segir Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins sem gerir viðburðinum ítarleg skil. „Með tilkomu þessa óvenjulega risasjónauka er nýtt skeið að hefjast. Nú getum við í fyrsta sinn skyggnst inn í köldustu gas- og rykský í geimnum og skoðað myndun stjarna og sólkerfa í meiri smáatriðum en nokkru sinni fyrr. Segja má að nýr gluggi sé að opnast að alheiminum með ALMA. Leitin að uppruna okkar er hafin fyrir alvöru."

Stöðin stendur á hrjóstrugri og afskekktri sléttu í Atacama-eyðimörkinni í Síle, nánar tiltekið á Chajnantor-sléttunni í Andesfjöllum. Fyrstu níu mælingamánuðina getur ALMA aðeins sinnt um það bil hundrað verkefnum. Áhugasamir stjörnufræðingar um allan heim lögðu hins vegar inn óskir um meira en 900 mælingar. Er það nífalt meira en sjónaukinn ræður við og metfjöldi umsókna um tíma í nokkurn sjónauka. Þau verkefni sem komust í gegnum nálaraugað voru valin út frá vísindalegu mikilvægi, fjölbreytni og hvernig þau uppfylla helstu vísindalegu markmið ALMA.

ALMA verður enn í smíðum á meðan fyrstu mælingar fara fram. Öll ný loftnet sem bætast við röðina verða tengd saman með ljósleiðara. Gögn frá hverju loftneti eru sett saman í eina stóra mynd með einni öflugustu ofurtölvu heims, sem var sérsmíðuð fyrir ALMA og getur framkvæmt 17.000 milljónir útreikninga á sekúndu.

Í kringum árið 2013 verður ALMA allt að sextán kílómetra breið röð 66 hárnákvæmra loftneta sem saman mynda einn risasjónauka.svavar@frettabladid.is


Tengdar fréttir

Loftnet vinna saman sem risasjónauki

ALMA er alþjóðlegt samstarfsverkefni Evrópu (ESO), Norður-Ameríku, Austur-Asíu og Síle um smíði stærsta stjörnusjónauka heims. Kostnaður við verkefnið nemur meira en einum milljarði dala, um 118 milljörðum íslenskra króna. Sjónaukinn verður tekinn í fulla notkun árið 2013. Í fréttatilkynningu frá ESO (European Southern Observatory, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli) kemur fram að skammstöfunin ALMA stendur fyrir Atacama Large Millimeter/submillimeter Array.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×