Viðskipti innlent

Gjaldeyrishöft veittu skjól en skaða hagkerfið til lengri tíma

gjaldeyrishöft Segja má að gjaldeyrishöftin hafi verið sett á til að milda höggið af bankahruninu. Nú ríður hins vegar á að losa höftin.Fréttablaðið/GVA
gjaldeyrishöft Segja má að gjaldeyrishöftin hafi verið sett á til að milda höggið af bankahruninu. Nú ríður hins vegar á að losa höftin.Fréttablaðið/GVA
Seðlabankinn Áætlun stjórnvalda um losun gjaldeyrishafta byggir á ótímasettum áföngum sem farið verður í að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.Fréttablaðið/Pjetur
@Mark.Meginmál Upphafsstafur:Flestir virðast vera sammála um að eitt mikilvægasta úrlausnarefnið í efnahagsmálum á Íslandi sé að afnema hér gjaldeyrishöft eins fljótt og auðið er. Höftin gáfu stjórnvöldum ráðrúm til að bregðast við bráðavanda bankahrunsins á sársaukaminni hátt en ella en valda hagkerfinu miklum skaða til lengri tíma. Þá getur reynst erfitt að afnema höft sem einu sinni eru komin á.Losuð eins hratt og hægt er en ekki hraðar en þaðFrá því að íslenska bankakerfið hrundi haustið 2008 hafa gjaldeyrisviðskipti með íslensku krónuna verið takmörkuð. Fyrst um sinn beindi Seðlabankinn þeim tilmælum til íslenskra fjármálastofnana að takmarka sölu gjaldeyris við brýn viðskipti með vörur eða þjónustu. Í lok nóvember 2008 voru síðan settar reglur sem takmörkuðu verulega fjármagnshreyfingar á milli Íslands og annarra landa og gjaldeyrisviðskipti í tengslum við slíkar hreyfingar. Byggðu reglurnar á bráðabirgðalögum um gjaldeyrismál en samhliða var höftum á gjaldeyrisviðskipti vegna vöru- og þjónustuviðskipta aflétt. Þar með var íslenska krónan komin í skjól hafta á ný og hefur búið við tvöfalt gengi síðan; skráningu Seðlabankans og svokallað aflandsgengi sem er það gengi sem myndast í viðskiptum erlendra krónueigenda. Gjaldeyrishaftareglurnar hafa verið endurskoðaðar nokkrum sinnum síðan en veigamesta breytingin var gerð í október 2009 þegar eftirlit með gjaldeyrisviðskiptum var hert verulega. Bendir ýmislegt til þess að höftin hafi í raun ekki byrjað að virka sem skyldi fyrr en eftir þá breytingu. Stuttu síðar voru fyrstu skrefin stigin í áttina að því að losa höftin. Byggðu þau á áætlun um afnám hafta sem lögð var fram í ágúst 2009. Var áætlunin unnin af Seðlabankanum með tæknilegri aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS). Önnur og ólík áætlun um afnám haftanna var kynnt í mars á þessu ári og er nú unnið eftir henni. Meginmarkmið hennar er að afnema höftin í skrefum án þess að valda óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði. Hún er því ekki tímasett heldur byggir á áföngum sem ráðist er í þegar ákveðin skilyrði eru uppfyllt. Hefur Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagt að höftin verði losuð eins hratt og hægt er en ekki hraðar en það. Í grófum dráttum má skipta áætluninni í tvennt. Fyrri áfanginn felst í aðgerðum til þess að lækka stöðu aflandskróna í höndum óþolinmóðra fjárfesta og beina þeim inn í íslenskt efnahagslíf. Seinni áfanginn snýst svo um losun hafta á almenn gjaldeyrisviðskipti.Af hverju gjaldeyrishöft?Gripið var til gjaldeyrishaftanna til að bregðast við hruni krónunnar í kjölfar falls íslensku bankanna þegar alþjóðlega fjármálakreppan stóð sem hæst. Erlendir fjárfestar óttuðust um eignir sínar hér á landi og losuðu sig unnvörpum við eignir í íslenskum krónum. Flóttinn frá krónunni olli lækkun á verði íslenskra eigna auk þess að blása út bæði gengistryggð og verðtryggð lán. Höftin gerðu Seðlabankanum einnig kleift að lækka vexti mun meira en hægt hefði verið að gera án hafta. Seðlabankinn hefði ella þurft að halda vöxtum háum til að reyna að stöðva fjármagnsflóttann sem hefði dýpkað kreppuna í kjölfar bankahrunsins. Þá gerðu höftin það að verkum að ríkissjóður gat fjármagnað sig mjög ódýrt til skamms tíma þar sem fjárfestar lokuðust inni og hægt var að halda vöxtum lægri en ella. Það má því segja að höftin hafi verið sett á til að milda höggið af bankahruninu. „Auðvitað var önnur leið hugsanleg, það er aldrei þannig að menn geti fullyrt um hvort þetta var nauðsynlegt eða ekki. Það er kannski best að lýsa því þannig að þetta hafi verið áhættuminnsta leiðin til þess að ná tökum á efnahagsmálunum,“ segir Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri og bætir við: „Þetta var ekki auðveld ákvörðun en það sem ég held að hafi gert útslagið er að ég hygg að án gjaldeyrishaftanna hefði sennilega verið erfitt að fá fyrirgreiðslu frá AGS. Það var ekki formlegt skilyrði en ég hygg að sjóðurinn hefði verið mjög hikandi að veita okkur aðstoð án þeirra með alla þá óvissu sem var til staðar.“ Arnór segir að hugsa megi um málið á þann veg að þarna vegist á annars vegar umtalsverður skammtímaávinningur; meiri gengisstöðugleiki, hraðari hjöðnun verðbólgu, lægri vextir og auðveldari fjármögnun ríkissjóðs, og hins vegar langtímakostnaður. „Hvernig menn meta það svo þegar upp er staðið ræðst dálítið af því hversu lengi höftin verða og hversu hratt við getum afnumið þau,“ segir Arnór og bendir á að kostnaðurinn sé ekki jafn sýnilegur og ávinningurinn. Því lengri tími sem líður, því þyngra vegur þessi kostnaður.Skaðsöm til lengri tímaÞótt margir telji gjaldeyrishöft geta verið gagnleg við sérstakar aðstæður er það samt sem áður viðtekin skoðun að gjaldeyrishöft dragi úr hagkvæmni á svipaðan hátt og tollar á inn- og útflutning. Í grundvallaratriðum hindra höftin það að fjármunir séu nýttir þar sem þeirra er mest þörf. Gjaldeyrishöft valda því að innlendur fjármálamarkaður missir tengsl við alþjóðlega fjármálamarkaði. Þá getur vaxtamunur myndast sem býr til hvata fyrir fjárfesta til að fara í kringum höftin. Því er yfirleitt þörf á einhvers konar eftirliti með því að farið sé eftir höftunum sem kostar vitaskuld peninga. Langvarandi gjaldeyrishöft geta valdið því að innlenda og erlenda fjármálamarkaði rekur sífellt lengra í sundur þar sem stofnanir og fjárfestar innan haftanna haga sér öðruvísi en utan þeirra. Því getur orðið sífellt erfiðara að taka stökkið frá höftunum aftur. Loks takmarka höftin möguleika innlendra aðila til að sækja sér fjármagn, til áhættudreifingar og þess að njóta stærðarhagkvæmni. Það dregur úr samkeppnishæfni atvinnulífsins og ætti að draga úr hagvexti. „Fyrir það fyrsta fylgir kostnaður þeim daglegu óþægindum við að vera með rekstur og þurfa í sífellu að vera að passa upp á sín gjaldeyrisviðskipti. Sá kostnaður kann að vera umtalsverður. Ef gjaldeyrishöftin orsaka svo einhver stóráföll eins og að missa fyrirtæki úr landi gæti það verið okkur mjög dýrt,“ segir Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og bætir við: „Loks bendi ég á eitt í viðbót sem er lítið rætt um. Við erum með eitt sterkasta lífeyrissjóðakerfi í heimi, kerfi sem byggir á uppsöfnuðum sjóðum á meðan flest ríki eru með gegnumstreymiskerfi þar sem vinnandi fólk borgar fyrir þá sem eldri eru. Okkar sjóðir eiga 2 þúsund milljarða en þar af er ansi stór hluti nú bundinn í skuldum ríkis og sveitarfélaga og það hlutfall er að aukast. Ég óttast að ef við verðum mikið lengur með þessi höft þá muni lífeyrissjóðirnir halda áfram að fjárfesta í eignum sem hafa einhvers konar endaáhættu hjá hinu opinbera. Með svona stórt hlutfall af fjármagninu bundið hjá hinu opinberu er þetta í raun orðið einhvers konar gegnumstreymiskerfi sem eru slæm skipti. Þá veldur þetta sjóðunum auðvitað skaða og sé sá skaði til dæmis 5 prósent þá er lífeyrissjóðakerfið að tapa 100 milljörðum.“ Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir höftin einnig draga úr tiltrú á íslenska hagkerfinu þar sem þau sendi út þau skilaboð að eitthvað sé að íslensku hagkerfi. Þá séu fjárfestar ragir við að fjárfesta hér vegna tvöfalda gengisins.Skiptar skoðanir um afnámsáætluninaÁætlun stjórnvalda um afnám hafta byggir eins og áður segir á ótímasettum áföngum. Farið verður í hvern og einn að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Samþykkt hefur verið að framlengja gildi haftanna til ársins 2015 en það er ekki þar með sagt að þau verði ekki afnuminn fyrir þann tíma. Þannig segist Arnór Sighvatsson ekki hafa áhyggjur af því að ekki verði hægt að afnema höftin fyrir þann tíma. Margir telja hins vegar of hægt ganga að afnema höftin og gagnrýna áætlunina fyrir að vera ekki nægilega markviss. „Ég hef gagnrýnt þessa áætlun á tveimur forsendum. Í fyrsta lagi hvílir öll aðferðafræðin á þeirri forsendu að gríðarlegt magn aflandskróna muni reyna að ryðjast út við fyrsta tækifæri sem gefst, á næstum hvaða gengi sem er. Staðreyndin er hins vegar sú að engin gögn styðja þessa fullyrðingu,“ segir Páll og heldur áfram: „Í öðru lagi tel ég aðferðafræðilega hönnunargalla vera á áætluninni. Þar set ég fyrst og fremst út á tvennt. Áætlunin er algjörlega ótímasett og ég veit ekki um nokkra ótímasetta áætlun sem er vænleg til árangurs. Svo eru viðmiðin sem stýra því hvernig farið verður úr einum áfanga í annan öll mjög óskýr. Talað er um mat Seðlabankans á hinu og þessu sem er óvíst hvað þýðir. Loks eru útboðin sem Seðlabankinn hefur haldið ekki til þess hönnuð að afla eins mikilla upplýsinga og hægt er á eins skömmum tíma og hægt er. Við erum nefnilega ekki að fá upplýsingar um hvað öðrum krónueigendum en aflandskrónueigendum finnst.“ Orri Hauksson talar á svipuðum nótum og segist efins um að skynsamlegt hafi verið á sínum tíma að koma þeim á. „Það er auðvitað ekki verið að finna upp hjólið hérna. Þjóðir hafa áður farið út úr höftum og með hliðsjón af því finnst mér vanta inn í þessa áætlun einhverjar tímasetningar og skuldbindingar um að farið verði eftir þessu plani. Þarna er einfaldlega lýst almennt að gera eigi þetta og hitt og að það verði bara gert á einhverju tempói,“ segir Orri og bætir við: „Það er síðan verið að gefa sér ákveðna lykilforsendu um að til séu hundruð milljarða aflandskróna sem vilji strax rjúka út. Þessi forsenda hefur hins vegar hvorki verið prófuð né sönnuð og raunar hafa gjaldeyrisútboð Seðlabankans bent til þess að þessir fjárfestar séu ekki svona óþolinmóðir.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×