Viðskipti innlent

Eyraroddi að seljast í tvennu lagi

Aftur eygja Flateyringar von um að sá guli glæði atvinnulífið á staðnum.
Aftur eygja Flateyringar von um að sá guli glæði atvinnulífið á staðnum.
Útgerðarfyrirtækið Lotna hefur gengið frá kaupum á fiskvinnsluhúsi og beitningahúsi sem voru í eigu þrotabús Eyrarodda á Flateyri. Þar að auki hefur það leigt bátinn Stjána Ebba og allan þann kvóta sem honum fylgir fram að næsta fiskveiðiári sem reyndar hefst eftir um það bil hálfan mánuð.

Sigurður Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Lotnu, segir að kaupin og leigan kosti tugi milljóna. Hann segir enn fremur að ekki standi til að kaupa fiskvinnsluhúsið sem Byggðastofnun eigi veð í en eftir að Eyraroddi fór í þrot bauð Lotna í það hús en Byggðastofnun féllst ekki á kaupin. „Við höfum sniðið okkur stakk eftir vexti og ætlum bara að halda áfram með þá vinnslu sem við erum nú þegar með,“ segir hann. „Við höfum líka séð að reksturinn á öllum húsunum, sem Eyraroddi skilur eftir, er hreinlega of dýr.“

Greint var frá því á vestfirska fréttavefnum BB í gær að tilboð hefði borist í þær eignir sem eftir eru í þrotabúinu, sem er þó stærsti hlutinn. Þar segir að það muni vera frá fyrirtækinu Arctic Fish sem er að hluta í eigu erlendra aðila. Haft er eftir Friðbirni E. Garðarssyni skiptastjóra að samningaviðræður hafi gengið vel og niðurstöðu sé að vænta fljótlega.

- jse






Fleiri fréttir

Sjá meira


×