Viðskipti innlent

Mikill áhugi á orku frá Þeistareykjum

Húsavík
Húsavík
Norðurþingi hefur borist ósk um viðræður um úthlutun á 20 hektara lóð á Bakka til fyrirtækisins Thorsil. Thorsil hefur hug á að reisa kísilmálmverksmiðju á Íslandi í samvinnu við kanadíska fyrirtækið Timminco.

„Við erum ekki búin að gera raforkukaupasamning en erum að reyna að tryggja okkur lóðina ef okkur tækist að fá orku þarna,“ segir Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Thorsil.

Fyrirtækið beinir nú sjónum sínum að orku frá Þeistareykjum en hefur áður skoðað möguleika á að reisa verksmiðju við Þorlákshöfn og á Grundartanga.Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri Norðurþings, segir ánægjulegt að áhugi sé fyrir uppbyggingu á svæðinu. „Við erum með PCC, við höfum átt frábært samstarf við Alcoa og núna sækir Thorsil um. Við tökum þeim bara eins og öðrum sem leitað hafa til okkar; með jákvæðu hugarfari. Við vonum bara að störfin og framkvæmdirnar fari að tikka, Þingeyingum og þjóð til heilla,“ segir Bergur Elías.

Fregnir bárust af því fyrr á árinu að þýska fyrirtækið PCC hefði sýnt áhuga á að reisa kísilmálmverksmiðju á Bakka. Verkefnið er þó enn á viðræðustigi. Þá hefur Alcoa lengi haft áhuga á að reisa þar álver.

Bergur segir íbúa á svæðinu orðna langeyga eftir framkvæmdum. „Frá árinu 1998 höfum við haft eitt markmið. Og það er að búa til 600 til 800 störf í Þingeyjarsýslum. Ef að við gerum það með álveri þá er það flott, ef það er eitthvað annað þá er það fínt,“ segir Bergur og bætir við að allt sé í raun klárt, það þurfi bara að ganga frá samningum við orkukaupanda.- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×