Viðskipti innlent

Íslendingar bíða eftir lúxusbílum frá Japan

Mikill fjöldi nýrra japanskra bifreiða gjöreyðilagðist í jarðskjálftanum í mars.
Mikill fjöldi nýrra japanskra bifreiða gjöreyðilagðist í jarðskjálftanum í mars. nordicphotos/getty
Eftirspurn eftir nýjum bifreiðum frá Japan er meiri en framboð hér á landi. Töluvert er um að Íslendingar, sem pöntuðu nýjan Land Cruiser eða Lexus-í vor, þurfi að bíða eftir afhendingu fram á haust.

Vegna jarðskjálftans og flóðbylgjunnar sem reið yfir Japan í vor dróst framleiðsla Toyota saman um helming. Hún jókst þó á ný í júní og er samdráttur í sölu og framleiðslu um tíu prósentum minni sé miðað við sama tíma í fyrra, að því er fram kemur á fréttavef Associated Press.

Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota á Íslandi, segir Íslendinga þó afar skilningsríka hvað þetta varðar.

„Viðskiptavinir sýna þessu fullan skilning, þeir vita að það er ekkert við þessu að gera,“ segir Páll. „Svona er þetta þegar náttúran tekur sig til. Og það könnumst við Íslendingar auðvitað afar vel við.“ Framleiðsla og sala hjá flestum japönskum bílaframleiðendum, svo sem Honda, Suzuki og Nissan, dróst sömuleiðis saman um allt að 50 prósent í maí miðað við sama tíma í fyrra, en líkt og hjá Toyota er sala sem og framleiðsla að komast á réttan kjöl. Áætlanir eru hjá Toyota um að framleiða aukalega 350 þúsund bifreiðar frá október næstkomandi og fram í mars 2012, til að bæta fyrir samdráttinn sem varð í framleiðslunni eftir hamfarirnar.

Páll segir eina aðalástæðu tafarinnar vera þá að erfitt var fyrir verksmiðjurnar að nálgast aðföng. Hver bíll sé settur saman úr meira en tíu þúsund hlutum og erfitt hafi verið að nálgast þá frá öðrum löndum eftir jarðskjálftann.

„Þetta hafði þau áhrif hér á landi að það varð töf á afgreiðslu Land Cruiser og Lexus, en það er verið að vinda ofan af þessu hægt og örugglega,“ segir Páll, en getur ekki gefið upp nákvæma tölu um hversu marga bíla vantar hingað til lands.

„Þetta er einhver slatti,“ segir hann. „En á næstu mánuðum verður þetta komið í eðlilegt horf á ný.“

sunna@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×