Viðskipti innlent

Lítið orðið af stórframkvæmdum

Framkvæmdir við álver í Helguvík voru í hópi þeirra verkefna sem talið var að væru komin einna lengst þegar skrifað var undir stöðugleikasáttmálann. Síðan hefur gengið hægt að koma framkvæmdum almennilega af stað.
Framkvæmdir við álver í Helguvík voru í hópi þeirra verkefna sem talið var að væru komin einna lengst þegar skrifað var undir stöðugleikasáttmálann. Síðan hefur gengið hægt að koma framkvæmdum almennilega af stað. Mynd/GVA
Lítið hefur enn orðið af þeim stórframkvæmdum sem boðaðar voru í stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins árið 2009. Framkvæmdir við nokkur verkefni gætu þó hafist á næstunni.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa margoft lýst því yfir að nauðsynlegt sé að auka fjárfestingu hér á landi með það fyrir augum að auka hagvöxt. Síðast í tengslum við gerð kjarasamninga í vor.

Fjárfesting var einungis 13 prósent af landsframleiðslu hér á landi á síðasta ári en þetta hlutfall hefur aldrei verið lægra. Þá var fjárfesting 14,1 prósent árið 2009. Ríkisstjórnin hefur sett fram markmið um að auka þetta hlutfall í 18 til 20 prósent. Það myndi þýða að fjárfesting ykist úr 200 milljörðum króna í 275 til 350 milljarða á ári.

Skrifað var undir stöðugleikasáttmálann svokallaða þann 25. júní árið 2009 en Samtök atvinnulífins sögðu sig síðar frá honum. Í sáttmálanum var vísað í minnisblað vegna verklegra framkvæmda. Þar má finna lista yfir framkvæmdir sem vonir voru bundnar við að gætu brátt hafist hér á landi. Var framkvæmdunum skipt í þrjá flokka; framkvæmdir sem þegar lágu fyrir, orkutengd verkefni á teikniborðinu og mögulegar einkaframkvæmdir.

Af ellefu sértækum orkutengdum verkefnum sem sögð voru á teikniborðinu árið 2009 hefur einungis eitt orðið að veruleika; gagnaverið Thor Data Center sem hóf rekstur í fyrra. Hætt hefur verið við sum verkefni en framhald annarra er í mikilli óvissu. Einu framkvæmdirnar sem komnar eru á útboðsstig eru jarðvarmavirkjanir Landsvirkjunar við Bjarnarflag og á Þeistareykjum.

Af sex sérstaklega tilgreindum framkvæmdum sem þóttu þegar liggja fyrir er einni svo gott sem lokið; tónlistarhúsinu Hörpu. Tvær eru í fullum gangi; stækkun álversins í Straumsvík og Búðarhálsvirkjun. Þá eru framkvæmdir við álver í Helguvík hafnar en framhald þeirra óvíst auk þess sem lítið er að frétta af orkuveri vegna álversins. Loks er lítið að frétta af fyrirhuguðu gagnaveri Verne Holding á Suðurnesjum en verkefnið er þó enn á lífi.

Lítið orðið af orkutengdum framkvæmdumEllefu sértækar orkutengdar framkvæmdir voru sagðar á teikniborðinu í minnisblaðinu sem fylgdi stöðugleikasáttmálanum. Eins og áður sagði er eitt verkefni orðið að veruleika og tvö á útboðsstigi. Ekkert hinna hefur beinlínis verið blásið af þótt margir telji ólíklegt að álver rísi á Bakka úr þessu. Það verkefnanna sem komið er lengst er Kísilver í Helguvík en óvissa um fjármögnun þess hefur komið í veg fyrir að framkvæmdir gætu hafist eins og stefnt var að í sumar.

Lengi leit út fyrir að stórt Kísilver yrði reist í Ölfusi en það verkefni er nú í dvala þar sem ekki hefur tekist að tryggja verinu aðgengi að orku. Hugmyndir um koltrefjaverksmiðju á Norðurlandi vestra hafa ekki komist af hugmyndastigi auk þess sem lítið er að frétta af framleiðsluaukningu sem fyrirhuguð var á Grundartanga.

Þá er enn vilji fyrir því hjá fyrirtækinu Greenstone að reisa gagnaver við Blönduós. Fjárfestarnir að baki verkefninu eru þó áhyggjufullir um horfur í efnahagsmálum beggja vegna Atlantshafsins og því smeykir við að leggja í nýfjárfestingar, segir Sveinn Óskar Sigurðsson, talsmaður Greenstone. Þá segir Sveinn stjórnvöld hafa staðið sig vel í því að aflétta hömlum sem hefðu getað staðið í vegi fyrir verkefninu.

Ekki eru þó öll verkefnin í biðstöðu. Hugmyndir um pappírsverksmiðju á Hellisheiði eru enn í fullum undirbúningi og að sögn Þórðar Kárasonar, framkvæmdastjóra Papco, vonast menn þar á bæ eftir því að geta tilkynnt um upphaf framkvæmda í haust.

Þá bárust fréttir af því fyrr á árinu að þýska fyrirtækið PCC hefði sýnt því áhuga að reisa kísilver á Bakka. Verkefnið er enn á viðræðustigi.

Ekkert orðið af einkaframkvæmdumÍ stöðugleikasáttmálanum var kveðið á um að stjórnvöld skyldu ganga til viðræðna við lífeyrissjóðina og fleiri aðila um fjármögnun stórra framkvæmda. Var þar til að mynda horft til hátæknisjúkrahúss, tvöföldunar Suðurlands- og Vesturlandsvegar, Vaðlaheiðarganga og Sundabrautar. Skemmst er frá því að segja að ekkert hefur orðið af þátttöku lífeyrissjóðanna eða annarra aðila í fjármögnum þessara framkvæmda.

Af þeim verkefnum sem talin voru upp í minnisblaðinu sem fylgdi stöðugleikasáttmálanum eru einungis hafnar framkvæmdir við tvöföldun Suðurlandsvegar. En þó ekki nema við fyrsta áfangann. Þá eru Vaðlaheiðargöng í útboðsferli og nýtt Hátæknisjúkrahús í skipulagsferli.

Loks er áætluð fimm milljarða króna fjárfesting í nýjum hjúkrunarheimilum sem ekki var kveðið á um í minnisblaðinu með stöðugleikasáttmálanum. Minnst er á hjúkrunarheimilin auk nýs fangelsis og framhaldsskóla í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamninga frá því í vor. Fyrirhugað er að fangelsið og framhaldsskólinn fari í útboð á næstunni.

Þá er stefnt að frekari framkvæmdum við skóla- og fræðabyggingar, til að mynda við byggingu fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×