Viðskipti innlent

Landsbankinn vill ekki taka Olís yfir

Olís komst í hendur nýrra eigenda um mitt ár 2003. Landsbankinn lánaði þeim 5,5 milljarða til kaupanna. Lánið var í erlendri mynt og hefur stökkbreyst síðan þá.
Olís komst í hendur nýrra eigenda um mitt ár 2003. Landsbankinn lánaði þeim 5,5 milljarða til kaupanna. Lánið var í erlendri mynt og hefur stökkbreyst síðan þá. Mynd/Vilhelm
Unnið er að endurskipulagningu skulda eigenda olíuverslunarinnar Olís við Landsbankann. Bankinn hefur ekki í hyggju að ganga að veðum og taka fyrirtækið yfir.

 

Þeir Einar Benediktsson, framkvæmdastjóri Olís, og Gísli Baldur Garðarsson stjórnarformaður keyptu Olís í gegnum einkahlutafélagið FAD 1830 um mitt ár 2003. Félagið var þá skráð á hlutabréfamarkað. Eftir viðskiptin var það afskráð.

Félag þeirra Einars og Gísla fékk 5,5 milljarða króna í erlendri mynt að láni hjá Landsbankanum og var reksturinn lagður að veði. Skuldir hafa hækkað mikið í gengishruninu. Viðræður, sem munu skammt á veg komnar, snúa að því að breyta erlendum skuldum eigenda félagsins í krónur og hlíta dómi Hæstaréttar um vaxtaútreikninga.

Lánið var upphaflega myntkörfulán til tveggja ára, það var með framlengingarheimild um fjögur ár til viðbótar og því á gjalddaga árið 2009. Samkvæmt ársreikningi 2007 hefur gjalddaginn verið framlengdur fram yfir næsta ár.

Athygli vekur að eigendur Olís greiddu sér samanlagt 3,4 milljarða króna í arð á árunum 2004 til 2009. Á sama tíma nam uppsafnað tap fyrirtækisins rúmum 1,1 milljarði króna.

Arðgreiðslur til FAD 1830 fyrir uppgjörsárið 2003 voru tæplega tvöfalt meiri en hagnaðurinn á sama tíma, tæpir 1,3 milljarðar króna. Þetta var fjórða hæsta arðgreiðslan sem fyrirtæki á Íslandi greiddi út árið 2004, að því er fram kemur í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Þá rann allur hagnaður næstu tveggja ára í vasa eigenda.

Arður var ekki greiddur út á árunum 2007 og 2009. Á sama tíma og Olís tapaði tæpum sex milljörðum árið 2008 námu arðgreiðslur hins vegar 625 milljónum króna.

Erfitt er að átta sig á stöðu FAD 1830, þar sem félagið hefur aðeins birt þrjá ársreikninga, fyrir árin 2003, 2006 og 2007. Greiddar hafa verið út í arð samtals 250 milljónir króna til eigenda FAD 1830.

Fram kom í bréfi frá Einari Benediktssyni, framkvæmdastjóra Olís, og lögmanninum Gísla Baldri Garðarssyni, til starfsmanna fyrirtækisins í síðustu viku að þeir hafi nýtt arðgreiðslurnar frá Olís til að greiða niður skuldir FAD 1830.

jonab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×