Viðskipti innlent

Fyrsta konan í karlafansi Nýherja

Elsu M. Ágústsdóttur finnst jákvætt að hafa bæði kynin í lykilstöðum hjá fyrirtækjum.
Elsu M. Ágústsdóttur finnst jákvætt að hafa bæði kynin í lykilstöðum hjá fyrirtækjum. Mynd/HAG
„Þetta er mjög skemmtilegt tækifæri. Ég lít samt ekki á þetta sem aðalatriði en tel mikilvægt að visst jafnvægi náist í kynjahlutföllum í fyrirtækjum, enda hefur það sýnt sig að þeim fyrirtækjum sem það gera vegnar yfirleitt betur,“ segir Elsa M. Ágústsdóttir.

Hún var ráðin framkvæmdastjóri smásölusviðs hjá Nýherja í apríl og er fyrsta konan til að gegna stöðu framkvæmdastjóra hjá fyrirtækinu frá stofnun þess fyrir nítján árum.

Á hennar könnu er rekstur verslana Nýherja, netverslunar, heildsölu til fyrirtækja auk sölu á prentlausnum til fyrirtækja.

Elsa, sem er 39 ára viðskiptafræðingur frá háskólanum á Bifröst, hóf störf hjá Nýherja árið 2006 og hefur bæði verið markaðsstjóri fyrirtækisins og rekstrarstjóri Sense, eins af dótturfélögum Nýherja.

Elsa bendir á að konum hafi fjölgað hjá Nýherja í seinni tíða eins og þróunin hefur verið í tæknigeiranum. Fyrr á þessu ári voru Hildur Dungal lögfræðingur skipuð í aðalstjórn Nýherja, og Marta Kristín Lárusdóttir, lektor við HR, skipuð í varastjórn. Þær eru fyrstu konurnar til setu í stjórninni.

- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×