Viðskipti innlent

Möndlur, hnetur og eik í lokin

The Glenlivet, 15 ára maltviskí.
The Glenlivet, 15 ára maltviskí.
The Glenlivet er eitt vinsælasta maltviskí í heimi og eitt það sögufrægasta. Viskíið er til dæmis mest selda maltviskíið í Bandaríkjunum. Einhver kynni að draga þá ályktun að slík framleiðsla gerði að einhvert miðjumoð væri á veigunum. Svo er ekki.

Þannig er til dæmis 15 ára gamalt Glenlivet maltviskí sem látið hefur verið eldast í frönskum eikartunnum (French Oak Reserve) með þeim fínni sem völ er á í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Michael Jackson gefur viskíinu 86 í einkunn af 100 mögulegum í nýjustu útgáfu bókar hans Michael Jackson‘s Malt Whisky Companion, sem út kom í fyrra.

Glenlivet er Speyside hálandaviskí framleitt við litla á sem nefnist Livet. Áin er sögufræg uppspretta vatns fyrir fjölda bruggara á svæðinu, auk þess að vera notuð til kælingar. Í bók Jackson‘s er frá því greint að á árum áður hafi verið hömlur á viskíframleiðslu á svæðinu og mátti bara búa til viskí á heimamarkað. Afskekkt brugghúsið var þá frægt fyrir framleiðslu sem send var til útlanda fram hjá lögum og reglu og gerði að verkum að þegar framleiðslan var gefin frjáls, árið 1824, var töluverð eftirspurn eftir veigunum „frá Glenlivet“ hjá kaupmönnum í Englandi.

Þetta gerði líka að allmargir framleiðendur í Speyside héraði tóku upp nafnið Glenlivet, þótt þeir væru margir verulega fjarri ánni Livet. Á því var hins vegar tekið og bara einn framleiðandi sem má nota nafnið, en það var sá sem fyrstur varð til að fá framleiðsluleyfi í byrjun nítjándu aldar. Einkarétturinn á heitinu fékkst árið 1880. Enn þann dag í dag eru flöskurnar merktar feðgunum George og J.G. Smith í smáu letri neðst á merkimiða þeirra, en þeir stofnuðu og áttu brugghúsið.

Viskíunnendur vita að í Glenlivet geta þeir gengið að ljúfum sopa, tiltölulega léttum en bragðríkum þótt ekki fari mikið fyrir móreyk. 15 ára viskíið sem hér er til umfjöllunar er svo óvenju margslungið í samsetningu sinni. Lyktin af því er mikil og sæt, og má greina í henni bæði hunang og vanillu, auk karamellukeims. Þegar í munninn er komið bætist svo við hnetukeimur með léttum biturleika og eikarbragði sem hver getur leikið sér að við að greina eftir því sem eftirbragðið leikur á tungunni.

15 ára Glenlivet er einstaklega vel heppnuð lögun og í góðu jafnvægi sem líklegt er til að gleðja jafnt viskísérfræðinga sem -áhugafólk með ljúfum og margslungnum eftirkeim sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×