Viðskipti innlent

Hærri vextir magna kreppuna

Már Guðmundsson
Már Guðmundsson
Hækkun vaxta myndi magna skuldakreppu fyrirtækja og heimila, valda auknum fjölda gjaldþrota og meiri óróa á vinnumarkaði. Þetta segir í grein sem Gylfi Zoëga, prófessor við Háskóla Íslands og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, ritar í nýjasta hefti efnahagsritsins Vísbendingar.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans við vaxtaákvörðun um miðjan mánuðinn, þegar vöxtum var haldið óbreyttum, kom hins vegar fram að vegna aukins verðbólguþrýstings væri hækkun vaxta líklegri en lækkun á næstunni. Þetta var ítrekað í greinargerð Seðlabankans til ríkisstjórnarinnar í byrjun mánaðarins.

Í grein sinni bendir Gylfi hins vegar á að kreppan hér stafi ekki af of lítilli eftirspurn og verðbólga ekki af of mikilli eftirspurn.

„Verðbólgan er að miklu leyti innflutt, stafar af hækkun á hrávöru á heimsmarkaði,“ segir hann og kveður við að eiga skuldakreppu sem lami fjárfestingar og mannaráðningar fyrirtækja og rýri lífskjör heimila.

Við þær aðstæður geti vaxtahækkun aukið skuldabyrði og haft svipuð áhrif og hækkað verð hrávöru, fyrirtæki beini kostnaði út í verðlag og verkalýðshreyfingin verjist af enn meiri hörku. „Friður á vinnumarkaði við hærri vexti krefst meira atvinnuleysis,“ segir Gylfi.

- óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×