Viðskipti innlent

Rétt að sporna við verðbólgu

Julie Kozack. AGS segir endurreisnarstarfið hér hafa gengið vel eftir efnahagshrunið.
Julie Kozack. AGS segir endurreisnarstarfið hér hafa gengið vel eftir efnahagshrunið. Mynd/Vilhelm
Efnahagslífið hér er að taka við sér og má búast við að fjárfestingar og aukin einkaneysla muni skila því að hagvöxtur verði 2,5 prósent á árinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) í gær.

Sendinefnd sjóðsins kom til landsins 21. júní síðastliðinn í tengslum við sjöttu og síðustu endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda og AGS. Nefndin lauk störfum í gær og er búist við að síðasta endurskoðunin verði samþykkt í ágúst.

Í tilkynningunni er haft eftir Julie Kozack, formanni sendinefndarinnar, að endurreisnarstarfið gangi vel, fjármálageirinn sé að komast á fætur. Eftirlit með honum hafi verið hert til muna. Það sé mikilvægt bæði til að draga úr áhættu innan geirans og styrkja hann. Þá er jákvætt hve fjárhagsleg endurskipulagning heimila og fyrirtækja hefur gengið vel, að hennar sögn.

Þá segir Kozack að þótt mat AGS á aðstæðum efnahagslífsins sé í meginatriðum óbreytt frá fimmtu endurskoðuninni í maí þá sé verðbólga ívið hærri en þá hafi verið búist við. Helsta skýringin er líkt og bent hefur verið á síðustu daga, gengislækkun krónunnar ofan á hækkun launa, fasteignaverðs og vöruverðs. Við þær aðstæður sé skynsamlegt að Seðlabankinn herði tökin á peningalegu aðhaldi, að mati AGS. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×