Viðskipti innlent

Samherjafrændi fær Björgun

Þorsteinn vilhelmsson
Þorsteinn vilhelmsson
Dótturfélag Landsbankans hefur selt fyrirtækið Björgun til hóps fjárfesta fyrir 306 milljónir króna. Einn kaupenda er Þorsteinn Vilhelmsson, fyrrverandi stjórnarformaður Atorku Group sem átti fyrirtækið áður. Björgun sérhæfir sig meðal annars í hafnardýpkun.

Kröfuhafar Atorku Group tóku félagið yfir í byrjun síðasta árs. Þorsteinn var stærsti hluthafi Atorku bæði í eigin nafni og gegnum fjögur einkahlutafélög með samtals um 28,3 prósenta hlut.

Björgun heyrði undir skilanefnd gamla Landsbankans en fór yfir til þess nýja með tilfærslu eigna og skulda á milli bankanna undir lok árs 2009.

Félög Þorsteins sem hlut áttu í Atorku Group voru tekin til gjaldþrotaskipta í fyrravor. Heildarkröfur námu 7,3 milljörðum og var Landsbankinn helsti kröfuhafinn. Fjölmiðlar greindu frá því fyrir um ári að svo kynni að fara að skilanefnd Landsbankans þyrfti að afskrifa sex milljarða króna vegna lána til Þorsteins. Samkvæmt upplýsingum frá skilanefnd Landsbankans fóru skuldbindingar Þorsteins gagnvart Landsbankanum yfir í nýja bankann við eignatilfærsluna.

Ekki liggur fyrir hvort salan á Björgun er liður í skuldauppgjöri bankans við Þorstein né hversu stóran hlut hann kaupir í Björgun. Athygli vekur að Þorsteinn kaupir sinn hlut í nafni einkahlutafélagsins Harðbaks. Félagið átti rúmlega níu prósenta hlut í Atorku Group. Á stjórnarfundi félagsins í ágúst 2009 var nafni þess breytt í 9. júní 1999 ehf. Félagið varð gjaldþrota í fyrravor. Tæpum mánuði eftir nafnbreytinguna blés Þorsteinn nýju lífi í Harðbak undir nýrri kennitölu. Skuldir hins nýja félags námu rúmum tveimur milljónum króna.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum seldi fyrirtækjaráðgjöf bankans Björgun í opnu söluferli og voru skuldbindandi tilboð metin meðal annars eftir fjárfestingargetu bjóðenda. Ekki náðist í Þorstein þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×