Viðskipti innlent

Caoz segir upp átta starfsmönnum

Teiknimyndin um Þór og hetjur Valhallar verður dýrasta teiknimynd í sögu Íslands. Ekki hefur hins vegar gengið að fjármagna næstu verkefni hjá Caoz.
Teiknimyndin um Þór og hetjur Valhallar verður dýrasta teiknimynd í sögu Íslands. Ekki hefur hins vegar gengið að fjármagna næstu verkefni hjá Caoz.
„Það finnst engum skemmtilegt að afhenda né fá uppsagnarbréf og auðvitað hefðum við viljað halda öllu þessu góða fólki. En því miður náðum við ekki að tryggja fjármögnun að næstu verkefnum og Þór-myndin er að klárast í sumarlok þannig að við urðum að grípa til þessa örþrifaráðs," segir Hilmar Sigurðsson, forstjóri kvikmyndafyrirtækisins Caoz.

Átta starfsmönnum var sagt upp hjá fyrirtækinu nýverið. Hilmar segir þetta ekki vera neinn heimsendi en viðurkennir að hann hefði viljað hafa betri verkefnastöðu þegar vinnu við teiknimyndinni Þór lýkur. „Margt af okkar fólki er á verkefnistengdum samningum og það lá alltaf fyrir að þetta yrði raunin ef okkur tækist ekki að tryggja inn fjármagn fyrir næstu myndir," segir Hilmar en teiknimyndin um Þór og hetjur Valhallar verður dýrasta teiknimynd sem íslenskt fyrirtæki hefur ráðist í að gera.

Hilmar vill ekki gefa upp hver þessi næstu verkefni eru en upplýsir að það sé ekkert launungarmál að Þór 2 sé inni í myndinni. „Fyrst verðum við auðvitað að klára númer eitt, það liggur í augum uppi."- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×