Viðskipti innlent

Skattlagning á rafbókum er byggð á misskilningi

Lítið læsi í Búlgaríu kom Fergal Tobin, formanni Samtaka evrópskra bókaútgefenda, á óvart. Hann telur mikilvægt að lækka álögur hins opinbera á bækur óháð útgáfuformi þeirra.
Lítið læsi í Búlgaríu kom Fergal Tobin, formanni Samtaka evrópskra bókaútgefenda, á óvart. Hann telur mikilvægt að lækka álögur hins opinbera á bækur óháð útgáfuformi þeirra. Mynd/GVA
Allar bækur, á hvaða formi sem þær eru, jafnt prentaðar sem rafrænar, eiga að bera lægsta mögulega virðisaukaskatt sem völ er á. Þetta segir Fergal Tobin, formaður Samtaka evrópskra bókaútgefenda, hagsmunasamtaka forleggjara innan aðildarríkja Evrópusambandsins og landa sem aðild eiga að Evrópska efnahagssvæðinu, EES.

Tobin er staddur hér á landi um helgina í tengslum við sumarfund samtakanna. Meginviðfangsefni fundarins er tillögur sem aðildarfélögin í ýmsum löndum ESB leggja til um lækkun á virðisaukaskatti á bækur.

Virðisaukaskattur á bækur er mishár innan ESB-ríkjanna. Alla jafna eru þær undanþegnar almennum virðisaukaskatti eins og hér. Í Noregi, Bretlandi, Írlandi og Póllandi er enginn virðisaukaskattur á bókum. Undantekningin er Danmörk og Búlgaría, en þar er hæsta álagning sett á prentaðar bækur. Öðru máli gegnir hins vegar um rafrænar bækur; þær bera hæstu álagningu hins opinbera í öllum aðildarríkjum ESB. Ástæðan fyrir því er sú að rafbækur eru flokkaðar með tölvuvörum.

Tobin segir það mjög undarlegt og í raun byggjast á misskilningi á eðli bóka: „Bækur eru ólíkar öðrum vörum; þær miðla upplýsingum, uppfræða lesendur um allt á milli himins og jarðar, svo sem viðskipti og stjórnmál, og nýtast sem kennslutæki. Innihaldið er ætíð það sama, óháð því á hvaða formi bækur eru gefnar út,“ segir hann.

Viðræður hafa staðið yfir við ráðamenn hjá ESB um málið og eru þær komnar skammt á veg. Hann segir þetta mikilvægt mál nú, ekki síst þar sem kreppan hafi dregið úr kaupmætti fólks í Evrópu og bóksala dregist saman.

Eitt af verkefnum Tobins á fundinum hér verður að ræða við fulltrúa bókaútgefenda frá Búlgaríu. Hagkerfi landsins er mjög óburðugt, fátækt mikil og bóksala dræm.

„Það kom mér á óvart að í sumum hlutum landsins er aðeins helmingur íbúanna læs. Ég get ekki sagt að það séu bein tengsl á milli þess og álagningar á bækur. En við munum ræða við stjórnvöld í Búlgaríu og leggja til að skatturinn verði lækkaður,“ segir Tobin.

jonab@frettabladid.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×