Viðskipti innlent

Hafnaði rökum Seðlabankans

Seðlabankinn Seðlabankanum er skylt að afhenda Samkeppniseftirlitinu upplýsingar um útlán banka.Fréttablaðið/Pjetur
Seðlabankinn Seðlabankanum er skylt að afhenda Samkeppniseftirlitinu upplýsingar um útlán banka.Fréttablaðið/Pjetur
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti í gær ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að beita Seðlabankann dagsektum vegna vanrækslu á afhendingu gagna og upplýsinga um útlán banka.

Forsaga málsins er sú að Samkeppniseftirlitið óskaði eftir gögnum frá Seðlabankanum í tengslum við rannsókn á samkeppnisaðstæðum á bankamarkaði. Seðlabankinn hafnaði hins vegar beiðninni með vísan til trúnaðar- og þagnarskyldu sem hvíldi á bankanum og benti á að eðlilegra væri að leitað væri beint til umræddra banka. Seðlabankinn fær í kjölfar úrskurðarins í gær frest til 1. júlí til að veita Samkeppniseftirlitinu þau gögn sem um var beðið en ella sæta dagsektum.

Í tilkynningu sem barst eftir að úrskurðurinn lá fyrir er hann sagður vera til skoðunar hjá Seðlabankanum. Þá er það sagt mat Seðlabankans að úrskurðurinn muni að óbreyttum lögum hafa áhrif á þá starfsemi bankans sem snýr að hagskýrslugerð. „Rík trúnaðar- og þagnarskylda hvílir á ríkisstofnunum sem sinna opinberri hagskýrslugerð og skulu upplýsingar sem aflað er til hagskýrslugerðar eingöngu notaðar í slíkum tilgangi," segir enn fremur í tilkynningunni en þar er ekki útilokað að málinu verði vísað til dómstóla. - mþl





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×