Viðskipti innlent

Ráðuneytið skiptir sér ekki af sölu Byrs

Byr Er í eigu slitastjórnar en í vörslu og umsjón fjármálaráðuneytisins.
Fréttablaðið/stefán
Byr Er í eigu slitastjórnar en í vörslu og umsjón fjármálaráðuneytisins. Fréttablaðið/stefán
Fjármálaráðuneytið hefur ekki kallað sérstaklega eftir upplýsingum um aðkomu fyrirtækisins Arctica Finance að sölunni á Byr sparisjóði. „Nei, mér er ekki kunnugt um það," segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins.

Hún segir að ef starfsmönnum ráðuneytisins þætti eitthvað athugavert við mál af þeim toga yrði leitað eftir upplýsingum.

Nær allt hlutafé í Byr, eða 95 prósent, er í eigu slitastjórnar sjóðsins en í vörslu og umsjón ráðuneytisins, að því er segir í samkomulagi um eignarhaldið.

Arctica Finance var eitt fyrirtækjanna sem tók þátt í útboði um að annast hlutafjárhækkun fyrir Byr, sem er undanfari fyrirhugaðrar sölu fyrirtækisins. Fyrirtækið varð að lokum fyrir valinu.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Þetta hefur sætt gagnrýni og bent hefur verið á að framkvæmdastjóri Arctica Finance, Stefán Þór Bjarnason, sé eiginmaður Evu Bryndísar Helgadóttur, formanns slitastjórnarinnar. Aðrir stjórnarmenn í Arctica Finance séu meðal annars móðurbróðir Evu Bryndísar og einnig kollegi hennar á lögmannsstofunni Mandat.

Í yfirlýsingu frá Byr í kjölfar fréttaflutnings RÚV af málinu kom fram að Eva Bryndís hefði hvergi komið nærri ákvörðuninni.

Halldór Friðrik Þorsteinsson, forstjóri HF verðbréfa, sem einnig buðu í verkið, skrifaði grein í Morgunblaðið í gær þar sem hann gagnrýndi málið af hörku. Í greininni fullyrðir Halldór að nokkru áður en útboðið var kynnt fyrir fyrirtækjum hafi undirverktakar Arctica verið ráðnir til Byrs til að undirbúa söluna.

Halldór sagði hugsanlegt að vinnubrögð sem þessi kynnu að fæla frá sómakæra fjárfesta sem ella hefðu haft áhuga á að kaupa í Byr.

Hann kallaði eftir viðbrögðum frá fjármálaráðuneytinu vegna málsins og sagði nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að grípa inn í af festu.

Rósa Björk segir að ráðuneytið vilji ekki tjá sig um söluferlið eða aðkomu Arctica þar sem ferlið standi enn yfir og því sé óeðlilegt að ráðuneytið hafi af því afskipti.

„Ef við teljum okkur vera með allt okkar á hreinu og í söluferli sem sé alveg pottþétt – sem við teljum okkur vera – þá erum við ekki að fara að taka undir einhverja gagnrýni á málið," segir Rósa.

Hún segir að slitastjórnin og Fjármálaeftirlitið (FME) beri mesta ábyrgð á málinu. „FME er eftirlitsaðilinn með því að þetta sé allt gert eftir lögum og reglum. Við treystum því að það sé í góðum farvegi," segir hún.stigur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×