Skoðun

Launakostnaður og samkeppnishæfni

Guðrún Sævarsdóttir skrifar
Með reglulegu millibili heyrast raddir framámanna úr atvinnulífinu um skort á tæknimenntuðu fólki. Illa gangi að fylla stöður verkfræðinga og tæknifræðinga með bakgrunn í hátækni-, véla- og rafmagnsgreinum, og einnig sé skortur á tölvunarfræðingum. Þá er hnippt í skólakerfið, sem ekki standi sig í því að laða nemendur að þessum greinum í þeim mæli sem atvinnulífið þarfnast til að byggja upp starfsemi tengda nýsköpun og framleiðslu.



Frá bæjardyrum háskólakennara séð væri vissulega gaman að sjá fleiri nemendur velja þessar greinar, en það er þó mikið af góðum nemendum sem fara í gegnum námsbrautir á þessum sviðum.

Vandinn er að fá þá út í íslenskt atvinnulíf.



Margir háskólakennarar hafa á tilfinningunni að mjög margir nemendur séu á leið úr landi að námi loknu. Margir fara út fyrir landsteinana í framhaldsnám, eins og rík hefð er fyrir á Íslandi, en breytingin sem má merkja er fyrst og fremst sú að þessir nemendur virðast ekki endilega stefna aftur heim að námi loknu. Þeir vita sem er að sérfræðiþekking á þessum sviðum er eftirsótt alþjóðlega og veitir tækifæri víða.



Það er ekki bara á Íslandi sem sókn nemenda í þessar greinar véla og rafmagns nær ekki að anna þörf atvinnulífsins.



Þá komum við að kjarna málsins. Launakjör á Íslandi hafa versnað mikið frá hruni bankakerfisins, sérfræðinga sem annarra, og þótt laun þeirra séu ágæt á íslenskan mælikvarða eru verkfræðingar og tæknifræðingar sem starfa hér á landi með innan við helming þeirra launa sem bjóðast í nágrannalöndunum. Að auki hafa kauphækkanir, skattar, bótaumhverfi og ívilnanir beinst að því að bæta kjör þeirra lægst launuðu, en þeir sem tilheyra hærri tekjuhópum hafa setið eftir og þurft að taka á sig auknar álögur. Í þessu felst verulegur hvati til að fara úr landi fyrir þá sem hafa eftirsótta þekkingu sem veitir starfstækifæri víða, og að sama skapi er síður fýsilegt fyrir sérfræðinga að snúa heim að framhaldsnámi loknu.



Tæknimenntað fólk á sviðum hátækni, véla og rafmagns er lykillinn að nýsköpun og uppbyggingu þekkingarmiðaðs, framleiðsludrifins atvinnulífs. Það er misskilningur að lág laun á Íslandi styrki samkeppnisstöðu þekkingarfyrirtækja hér. Til lengri tíma mun það skerða samkeppnishæfni þessara fyrirtækja hér ef kjör sérfræðistétta eru langt frá því að vera samkeppnishæf miðað við nágrannalöndin. Af sömu ástæðu er varhugavert fyrir hið opinbera að þrengja óhóflega að þeim sem eru með tekjur yfir meðallagi, því hætta er á því að þeir sem hafa tækifæri víða kjósi með fótunum. Þá munu háskólarnir bara halda áfram að mennta fyrir Noreg, en íslenskt atvinnulíf eflist hægar en annars gæti orðið.




Skoðun

Sjá meira


×