Viðskipti innlent

Vilja bíla fólks sem fer í greiðsluaðlögun

Umboðsmaður skuldara telur kaupleigusamninga sambærilega öðrum bílalánum, og að skuldurum sé ekki heimilt að greiða af þeim sæki þeir um greiðsluaðlögun. Fréttablaðið/pjetur
Umboðsmaður skuldara telur kaupleigusamninga sambærilega öðrum bílalánum, og að skuldurum sé ekki heimilt að greiða af þeim sæki þeir um greiðsluaðlögun. Fréttablaðið/pjetur
Lánafyrirtækið SP fjármögnun hótar að rifta samningum um kaupleigu á bílum einstaklinga sem óskað hafa eftir greiðsluaðlögun eftir að nöfn þeirra birtast í Lögbirtingarblaðinu. Kaupleigusamningar teljast lán og því má fólk ekki greiða af bílunum.

 

Í riftunarbréfum sem SP fjármögnun hefur sent fólki sem sótt hefur um greiðsluaðlögun kemur fram að fyrirtækið hafi óskað eftir lagabreytingu til þess að fólk sem sótt hefur um greiðsluaðlögun fái að greiða áfram af kaupleigusamningum. Við því hafi ekki verið orðið og því sjái fyrirtækið sér ekki annan kost en að rifta samningum við þá sem óski eftir greiðsluaðlögun.

 

„Það síðasta sem við viljum gera er að taka bílana, við græðum ekkert á því,“ segir Kjartan Georg Gunnarsson, framkvæmdastjóri SP fjármögnunar.

 

Hann segir aðeins standa til að rifta samningum fólks sem skuldi meira en andvirði bílanna. Verði samningunum ekki rift sé fólkið að keyra á bílum sem séu skráð eign fyrirtækisins án þess að greiða af þeim. Eigi það eitthvað í bílnum geti það keyrt þá áfram, en þá rýrni um leið eign þeirra.

 

Hann bendir á að í langsamlega flestum tilvikum þurfi fólkið hvort eð er að skila bílunum eftir að það er komið í greiðsluaðlögun, hafi það ekki efni á að greiða af þeim.

 

Kjartan segir að deilt sé um hvort fólk megi borga af kaupleigusamningunum á meðan það er í greiðsluskjóli eftir að hafa sótt um greiðsluaðlögun. Lögmenn SP telji að það sé heimilt, sé bíllinn nauðsynlegur til að fólk geti stundað sína vinnu. „Þessi framkvæmd laganna er verri fyrir kúnnana, hún leysir ekki málin til framtíðar,“ segir Kjartan. „En ef fólk þarf svo að skila bílnum hvort eð er á það ekki að keyra bílinn á okkar kostnað á meðan það er í greiðsluskjóli.“

 

Samkvæmt upplýsingum frá Umboðsmanni skuldara teljast kaupleigusamningar eins og hver önnur bílalán. Þeim sem sækja um greiðsluaðlögun er óheimilt að greiða af bílunum, enda væri þar með verið að gera upp á milli kröfuhafa.

 

Þeim sem eru með bíla á kaupleigu eiga því ekki annan kost en að skila SP bílunum þrátt fyrir ákvæði laga um greiðsluaðlögun sem koma þeim sem sækja um aðlögun í greiðsluskjól.

 

Niðurstaða umboðsmanns skuldara er sú að SP fjármögnun sé óheimilt að krefja þá sem eru með bíla á kaupleigusamningum um greiðslur, en það sé svo ákvörðun fyrirtækisins hvort það kjósi að rifta samningi við þá sem sótt hafa um greiðsluaðlögun.

 

brjann@frettabladid.is

thorunn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×