Viðskipti innlent

Sendur norðurleiðina með hraði

Jón Elías Gunnlaugsson að störfum í Ölvisholti. Fréttablaðið/Pjetur
Jón Elías Gunnlaugsson að störfum í Ölvisholti. Fréttablaðið/Pjetur
Gos hófst í Vatnajökli rétt í þann mund sem tilbúið var nýtt sérbrugg af samnefndum bjór í Ölvisholti í Flóahreppi. „Ég gekk yfir í brugghúsið á laugardagskvöldið að sækja Vatnajökul í könnu og frétti þegar ég kom út að gos væri hafið,“ segir Jón Elías Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Ölvisholts.

Framleiðslan er samstarf Ölvisholts og Ríkis Vatnajökuls, en bjórinn á einvörðungu að fást á börum og í veitingahúsum í nágrenni jökulsins. Jón Elías segist engar áhyggjur hafa af því að gosið setji strik í reikninginn þegar kemur að sölu bjórsins. „Nei, ég er fullur bjartsýni. Ég sendi hann strax austur með hraði, en við urðum að senda hann norður fyrir,“ segir hann. „Það er nú nógu erfitt að fá yfir sig eldgos þó að menn hafi ekki eitthvað almennilegt að drekka.“

Jón segist hins vegar ekkert of spenntur fyrir því að brugga mjög mikið af Vatnajökli, því framleiðslan á honum sé flókin. „Við fáum hingað til okkar flutningabíla með nokkur tonn af jökulís úr Jökulsárlóninu sem við svo bræðum til að fá vatn í framleiðsluna,“ segir hann. Þá segir hann einnig stuðst við séruppskrift og bjórinn því ólíkur öðrum bjór frá fyrirtækinu. Til dæmis sé hann kryddaður með blóðbergi. „Hann er því dálítið sérstakur, en útlendingar eru mjög hrifnir af honum.“- óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×