Viðskipti innlent

Ráðherra vill fá lyktir í dagsektadeilunni

Árni Páll Árnason Ráðherra mun funda með forsvarsmönnum Seðlabankans og Samkeppniseftirlitsins.
Árni Páll Árnason Ráðherra mun funda með forsvarsmönnum Seðlabankans og Samkeppniseftirlitsins.
fjármál Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur kallað stjórnendur Seðlabanka Íslands og Samkeppniseftirlitsins á sinn fund í vikunni til að reyna að finna lausn á deilumáli á milli stofnananna. Stofnanirnar heyra báðar undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið.

Samkeppniseftirlitið lagði dagsektir á bankann í síðustu viku með því fororði að bankinn hafi hafnað því að gefa upplýsingar um útlán einstakra banka og sparisjóða. Með neituninni hefur Seðlabankinn brotið samkeppnislög að mati eftirlitsins.

Seðlabankinn útskýrir ákvörðun sína um að neita Samkeppniseftirlitinu um gögn með þeim rökum að þagnarskylda bankans sé afar rík. Samkeppniseftirlitið telur hins vegar að bankinn hafi vanrækt ótvíræða lagaskyldu um afhendingu gagna og upplýsinga.

Árni Páll segir deiluna óheppilega og að greiða verði úr henni sem fyrst. „Það er mikilvægt að eftirlitsstofnanir vinni í takt. Það er einn af lærdómum hrunsins að þær deili upplýsingum að því marki sem mögulegt er. Það er líka mikilvægt að nauðsynlegur trúnaður gildi um viðkvæmar upplýsingar. Það er líka brýnt að þeir sem láta trúnaðarupplýsingar frá sér til tiltekinna stofnanna geti treyst því að farið sé með þær af virðingu.“

Árni segir báðar stofnanirnar gegna afar mikilvægu samfélagslegu hlutverki og í því ljósi nálgist hann deiluna. - shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×