Viðskipti innlent

Viðræður um sölu á eignum Icelandic Group sagðar langt komnar

Ein þeirra verksmiðja Icelandic Group sem sögð er föl er Pickenpack í Þýskalandi.
Ein þeirra verksmiðja Icelandic Group sem sögð er föl er Pickenpack í Þýskalandi.
Fjölmörg fyrirtæki í alþjóðlegum sjávarútvegi og fjárfestar hafa sýnt áhuga á eignum Icelandic Group. Bank of America Merrill Lynch í Bandaríkjunum hefur verið ráðgjafi um mögulega sölu á hlut í félaginu og eignum þess. Þeim sem áhuga hafa á fyrirtækinu er vísað til bankans, að sögn Péturs Þ. Óskarssonar, talsmanns Framtakssjóðs Íslands, aðaleiganda Icelandic Group.

Norski netmiðillinn IntraFish greindi frá því í gær að viðræður um kaup asísku sjávarútvegssamstæðunnar Pacific Andes International á fyrirtækjum og verksmiðjum Icelandic Group í Þýskalandi og Frakklandi séu langt komnar. Verðið er sagt á milli sjötíu til hundrað milljónir evra, allt að sextán milljarðar króna.

Evrópski sjóðurinn Triton lagði fram tilboð í erlenda starfsemi Icelandic Group í byrjun árs upp á þrjú hundruð milljónir evra, 48 milljarða króna.

Fréttablaðið hafði þá eftir Carl-Evald Bakke-Jacobsen, meðeiganda Triton, að litið væri á Icelandic Group sem grunn að fisksölurisa á heimsvísu. Upp úr viðræðum slitnaði snemma í febrúar. Á sama tíma var tilkynnt að verksmiðjur í Bandaríkjum og rekstur í Kína yrði settur í opið söluferli en verksmiðjum í Evrópu og vörumerki fyrirtækisins haldið. Forstjóri og aðaðstoðarforstjóri Icelandic Group sögðu upp störfum í kjölfarið.

Pétur sagði Framtakssjóðinn ekki vilja tjá sig efnislega um orðróm eða einstaka fréttir af félaginu.

- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×