Viðskipti innlent

Ríkið stýri nýtingu og kosti rannsóknir

Orka Orkufyrirtæki eiga að tryggja að nýting jarðhita hafi jákvæð samfélagsleg áhrif, að mati faghóps um sjálfbæra nýtingu jarðvarma.Fréttablaðið/Vilhelm
Orka Orkufyrirtæki eiga að tryggja að nýting jarðhita hafi jákvæð samfélagsleg áhrif, að mati faghóps um sjálfbæra nýtingu jarðvarma.Fréttablaðið/Vilhelm
Ef tryggja á sjálfbæra nýtingu jarðvarma í landinu verður ríkið að tryggja að auðlindastýring sé markviss og skynsamleg og kosta nægilegar rannsóknir svo það sé mögulegt, að því er fram kemur í nýrri skýrslu um sjálfbæra nýtingu jarðvarma.

Skýrslan var unnin af faghópi um sjálfbæra nýtingu jarðvarma, sem skipaður var af Orkustofnun og stjórn rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Í niðurstöðum hópsins kemur fram að hann telji að aukin vinnsla jarðhita á Íslandi sé ásættanleg, svo framarlega sem gætt sé að ýmsum atriðum. Þau atriði má sjá hér til hliðar. Er meðal annars vísað til framkvæmdaáætlunar svokallaðrar Ríó-yfirlýsingar, þar sem fram kemur að iðnaður skuli frekar byggður upp þar sem völ sé á umhverfisvænum orkugjöfum.

Hópurinn leggur í niðurstöðum sínum áherslu á það stjórnsýslulega hlutverk ríkisins að hafa umsjón með því hvernig jarðvarmaauðlindin sé rannsökuð og nýtt. Nægilegar upplýsingar séu forsenda þess að stýring á nýtingu auðlindarinnar sé skynsamleg.

Með því að kosta rannsóknir er líklegra að stjórnvöld öðlist þá yfirsýn sem þarf til að tryggja langtímahagsmuni landsmanna í orkumálum, að því er segir í skýrslunni.

Að mati faghópsins er heppilegt að leyfisveitingar og stjórnun auðlindarannsókna á vegum ríkisins séu á forræði sömu stofnunar. Með því nýtist yfirsýn og fagþekking.

Erfitt getur verið að segja til um nákvæmlega hversu mikla raforku má vinna úr ákveðnu svæði þannig að vinnslan haldist sjálfbær. Ástæðan er sú að vinnslugetan er ekki þekkt við upphaf vinnslu heldur þarf að meta hana samhliða vinnslu, segir í skýrslunni.

Þetta þýðir að heppilegast gæti verið að uppbygging vinnslu færi fram í nokkrum þrepum til að tryggja að ekki væri farið yfir mörk sjálfbærni á hverju svæði fyrir sig. brjann@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×