Viðskipti innlent

Inspired by Iceland í flokki með risum

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson skrifar
Íslenska auglýsinga- stofan hefur fengið fjölda verðlauna, bæði hér heima og erlendis, fyrir auglýsingaherferðina Inspired by Iceland. 
Fréttablaðið/Stefán
Íslenska auglýsinga- stofan hefur fengið fjölda verðlauna, bæði hér heima og erlendis, fyrir auglýsingaherferðina Inspired by Iceland. Fréttablaðið/Stefán
„Það er mjög góð viðurkenning á því að það sem við gerðum jafnast á við það besta sem gert er í heiminum. Það skiptir ekki öllu máli hvort við vinnum. Meiru skiptir að við komumst í úrslit,“ segir Kristján Schram hjá Íslensku auglýsingastofunni.

Hann stýrði fyrir hönd auglýsingastofunnar herferðinni Inspired by Iceland, samvinnuverkefni á vegum ríkis og borgar auk fyrirtækja í ferðaþjónustu. Herferðinni var hleypt af stokkunum í júní í fyrra til að vekja athygli á landi og þjóð og vinna á móti stórkostlegri fækkun ferðamanna vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Í fyrravor stefndi í að ferðamönnum myndi fækka um 22 prósent á milli ára yrði ekkert að gert.

Herferðin er nú komin í úrslit í Global Effie-keppninni, sem er ein virtasta viðurkenning sem markaðsfólki í heiminum getur hlotnast og litlu við að jafna í auglýsingageiranum öðru en Óskarsverðlaununum.

Keppnin er haldin einu sinni á ári og verða verðlaunin afhent í New York í Bandaríkjunum í júní. Fram til þessa hefur Íslenska auglýsingastofan fengið fimm tilnefningar í erlendum samkeppnum, og ein verðlaun, fyrir herferðina auk þess að fara með heim tvenn verðlaun á ÍMARK-hátíðinni fyrr á þessu ári, meðal annars fyrir bestu herferðina.

Ljóst er að Íslenska auglýsingastofan er komin í lið með stóru strákunum en undantekningalítið hafa stærstu stofur heims farið heim með gull, silfur eða brons úr Global Effie-keppninni síðustu ár. Þar á meðal eru Leo Burnett, TBWA, Ogilvy & Mather, Grey Global, JWT og DDB. Herferðirnar sem hlotið hafa verðlaun í gegnum tíðina eru matvörurisinn Kellogg‘s, hreinlætisvörufyrirtækið Dove, skyndibitakeðjan McDonald‘s, íþróttavöruframleiðandinn Adidas og tæknifyrirtækið Apple.

Herferðirnar sem tilnefndar eru til Global Effie-verðlaunanna eiga það sammerkt að hafa náð til nokkurra landa en skilyrðið fyrir tilnefningu er að þær hafi farið fram í að minnsta kosti fjórum löndum og í tveimur heimsálfum. Þá er ekki síður horft á strategíska innsæið en árangur herferðarinnar.

„Hér er verið að veita okkur viðurkenningu fyrir þann hluta sem fór ekki fram á Íslandi. Íslendingar sáu í raun minnst af herferðinni, kannski fimm prósent,“ segir Kristján og bendir á að bæði hafi verið horft til skemmri og lengri tíma með herferðinni. Skammtímamarkmiðið sneri að því að fjölga ferðamönnum í fyrrasumar. Langtímamarkmiðið var að vekja athygli á landi og þjóð með notkun samfélagsvefja, almannatengsla og heimasíðu herferðarinnar.

Icelandair greindi frá því í síðustu viku að áætlað sé að erlendum ferðamönnum hér muni fjölga um fimmtán til tuttugu prósent á milli ára. Það merkir að sex hundruð þúsund erlendir ferðamenn komi til landsins í sumar. Það er hundrað þúsund fleiri ferðamenn en í fyrra og mesti vöxtur í ferðaþjónustu á einu ári frá því mælingar hófust.

„Við erum stolt af því að hafa tekið þátt í þessu átaki sem er einstakt í Íslandssögunni. Ferðamönnum fjölgar enn og þær gjaldeyristekjur sem þeir færa þjóðarbúinu eru mikils virði,“ segir Kristján.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×