Viðskipti innlent

Telur að aðgangur að lánsfé geti lokast

ásdís Óvissa ríkir á meðan beðið er eftir því hvort matsfyrirtæki færi lánshæfismat ríkisins í ruslflokk, segir forstöðumaður greiningardeildar Arion Banka. Fréttablaðið/GVA
ásdís Óvissa ríkir á meðan beðið er eftir því hvort matsfyrirtæki færi lánshæfismat ríkisins í ruslflokk, segir forstöðumaður greiningardeildar Arion Banka. Fréttablaðið/GVA
„Niðurstaðan er ekki til að eyða óvissunni. En við bjuggumst aldrei við miklum tíðindum á fyrsta degi," segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka.

Rólegt var yfir fjármálamarkaði í gær, á fyrsta virka deginum eftir að Icesave-samningarnir voru felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu á laugardag. Hvorki urðu stórvægilegar breytingar á skuldabréfamarkaði né hreyfðist skuldatryggingarálag (CDS) ríkisins.

Ásdís bendir á að beðið sé eftir viðbrögðum matsfyrirtækjanna Moody's og Standard & Poor's, sem hefðu hótað því að fella lánshæfi ríkissjóðs í ruslflokk yrðu samningarnir felldir.

Lánshæfi ríkissjóðs hefur verið í ruslflokki hjá matsfyrirtækinu Fitch frá því að forseti Íslands setti fyrri Icesave-samninginn í hendur þjóðarinnar í janúar í fyrra. Í áliti Fitch í gær kemur fram að niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni nú geti tafið fyrir hærra mati.

„Ég held að ef lánshæfiseinkunn ríkissjóðs verði færð í ruslflokk hjá hinum fyrirtækjunum þá muni það hafa neikvæð áhrif. Ríkissjóður mun ekki geta fjármagnað sig á erlendum vettvangi með slæma lánshæfiseinkunn," segir Ásdís og bendir jafnframt á að vafi sé á því hvort Landsvirkjun geti tryggt sér lánsfé vegna framkvæmda við Búðarhálsvirkjun hjá evrópska fjárfestingarbankanum. Í nýlegum lánasamningi fyrirtækisins upp á sjötíu milljónir evra, 11,3 milljarða króna, er skilyrði um að lánshæfið verði óbreytt.

Ekki náðist í Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar, þegar eftir því var leitað í gær. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×