Viðskipti innlent

Ósamið um 4,3 milljarða greiðslu

Guðmundur Rúnar Árnason segir von á lausn varðandi 4,3 milljarða skuld sem er á gjalddaga í dag. Fulltrúi Sjálfstæðisflokks segir meirihlutann verða að leysa úr málinu.
Guðmundur Rúnar Árnason segir von á lausn varðandi 4,3 milljarða skuld sem er á gjalddaga í dag. Fulltrúi Sjálfstæðisflokks segir meirihlutann verða að leysa úr málinu.
„Þetta er bara í eðlilegum og góðum farvegi," segir Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri í Hafnarfirði, um 4,3 milljarða lán bæjarins sem er á gjalddaga á morgun.

Fulltrúar minnihluta Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn lýstu í gær áhyggjum yfir að ekki væri lokið endurfjármögnun 4,3 milljarða króna láns hjá Depfabank, þrátt fyrir að gjalddagi lánsins sé í dag.

„Það er mjög alvarlegt mál ef þetta fer í formleg vanskil. Það óskar þess enginn og allra síst við. Þess vegna höfum við verið aö reyna að hvetja meirihlutann til að ganga frá þessu máli sem allra fyrst og jafnhliða því að búa svo um hnúta í rekstrinum að við höfum afgang til að semja um og greiða þetta niður á einhverju eðlilegu tímabili," segir Valdimar Svavarsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks.

Valdimar Svavarsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks segir meirihluta Samfylkingar og VG verða að ganga frá skuldamáli.
Guðmundur segist telja að fara eigi varlega í umfjöllun um slík mál. „Menn eiga að fara varlega í því sem þeir segja og bóka þegar slík vinna stendur sem hæst," segir bæjarstjórinn sem ekki svarar því hvort svo kunni að fara að lánið fari í vanskil. „Þegar svona vinna er í gangi er óskynsamlegt að tala efnislega um málið opinberlega. Úrvinnsla málsins er í mjög góðum farvegi og ég er sannfærður um að það sé mjög stutt í að það verði mjög fín lausn í málinu."

Kjörin á núverandi láni munu vera afar hagstæð. Búast má við því að sú endurfjármögnun sem fæst verði mun óhagstæðari fyrir Hafnarfjarðarbæ. Um næstu áramót bíður síðan gjalddagi á fimm milljarða króna láni sem einnig er hjá Depfabank.- gar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×