Viðskipti innlent

Skattar komi í veg fyrir framsal kvóta

Samtök atvinnulífsins hafa lýst því yfir að ekki standi til að gefa eftir kröfur um að sátt náist um framtíð fiskveiða áður en skrifað verði undir kjarasamninga.Fréttablaðið/Vilhelm
Samtök atvinnulífsins hafa lýst því yfir að ekki standi til að gefa eftir kröfur um að sátt náist um framtíð fiskveiða áður en skrifað verði undir kjarasamninga.Fréttablaðið/Vilhelm
Koma á í veg fyrir kvótaframsal með skattlagningu, samkvæmt óbirtum tillögum Samtaka atvinnulífsins (SA). Samtökin kynntu í fyrradag hugmyndir um að afnotatími útgerða af kvóta verði 35 ár, með möguleika á framlengingu í rúm 52 ár. Þá vilja samtökin að veiðileyfagjald miðist við hagnað fremur en framlegð útgerða.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur gengið treglega að fá fulltrúa ríkisstjórnarinnar til fundar um hugmyndir SA. Samtökin halda aðalfund sinn í dag en þar halda erindi bæði Vilmundur Jósefsson, formaður SA, og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.

Til stóð að birta í gær seinni hluta tillagna SA í sjávarútvegsmálum, en birtingunni var frestað þar sem endanlegum frágangi þeirra var ekki lokið.

Vilmundur Jósefsson, formaður SA, segir tillögur samtakanna sem eftir eiga að koma fram snúa sérstaklega að framsali aflaheimilda. „Í reynd lúta tillögurnar að því að allt nettóframsal innan ársins verði skattlagt hressilega. Sem þýðir þá að menn veiði sínar heimildir," segir Vilmundur og kveður tilganginn meðal annars að koma í veg fyrir „rugl" sem viðgengist hafi síðustu ár í því að menn fái afhentar veiðiheimildir og leigi þær út, en lifi sjálfir „praktuglega".

Vilmundur segir að til að viðhalda hagræðingu sé eftir sem áður nauðsynlegt að heimila framsal á veiðiheimildum innan fiskveiðiársins. „En allt nettóframsal verður skattlagt upp í topp." Þá sé gert ráð fyrir því að hluti kvóta gangi áfram í potta sem standi undir hlutum á borð við línuívilnun, byggðakvóta, strandveiðar og jafnvel nýliðun í greininni. Vilmundur segir að nú þegar fari um 16 þúsund þorskígildistonn í slíka potta. „Og það er alveg hellingur."

Með þessum tillögum og þeim sem þegar eru fram komnar vonast Vilmundur til þess að hægt verði að leiða til lykta deilur um framtíðarskipan sjávarútvegsmála. „Ef einhver sanngirni er í þessu máli ætti sá grundvöllur að vera kominn. Búið er að taka á allmörgum málum sem leiðrétta kerfið og gjörbreyta því í reynd."

olikr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×