Viðskipti innlent

Ríkið á 400 bújarðir

Í sveitinni Ríkið á um sex prósent allra jarða í landinu. Hlutfallið var níu prósent um aldamót.fréttablaðið/gva
Í sveitinni Ríkið á um sex prósent allra jarða í landinu. Hlutfallið var níu prósent um aldamót.fréttablaðið/gva
Íslenska ríkið seldi um tvö hundruð bújarðir í sinni eigu á árabilinu 2000 til 2010. Þorri jarðanna var seldur fram til ársins 2007 en frá og með hrunárinu 2008 hafa samtals tuttugu jarðir verið seldar.

Kaupendur ríkisjarða voru framan af áratugnum af ýmsu tagi; ábúendur, sveitarfélög, félagasamtök og einstaklingar sem ekki stunda búskap. Eftir hrun hafa ábúendur keypt svo til allar seldar ríkisjarðir.

Samkvæmt upplýsingum frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu var nokkuð um að ábúendur sem áttu lögvarinn kauprétt að jörðum og höfðu lýst áhuga á kaupum hættu við eða ákvæðu að bíða eftir hrunið. Sömu sögu er að segja af sveitarfélögum, sem fram að þeim tíma höfðu keypt allnokkrar jarðir.

Heildarfjöldi bújarða í landinu er 6.562. Af þeim eru 4.290 í ábúð og 2.272 í eyði. Skilgreiningin er tæknileg og snýr fyrst og fremst að lögheimilisskráningu bónda. Eru mörg dæmi þess að jörð sem skráð er í eyði sé nýtt til landbúnaðarnota.

Ríkið á nú, samkvæmt nýjustu upplýsingum, 400 bújarðir. Af þeim eru 350 á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og 50 á forræði annarra ráðuneyta. Af þessum 400 eru 239 í ábúð og 161 í eyði. Á ríkið um sex prósent allra jarða en um aldamótin átti ríkið um níu prósent jarða í landinu.

Samkvæmt upplýsingum frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu var sú stefna tekin upp í ráðuneytinu árið 2009 að auglýsa ekki ríkisjarðir til sölu á frjálsum markaði, nema sérstakar ástæður mæltu með slíku. Vegna ástandsins á markaði hefur lítið reynt á þá stefnubreytingu.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, boðaði við upphaf nýafstaðins búnaðarþings frumvarp til breytinga á jarðalögum. Markmið breytinganna er að formfesta skynsamlega landnýtingu með tilliti til fæðuöryggis þjóðarinnar, eins og hann orðaði það í ávarpi sínu. Frumvarpið var ekki lagt fram á Alþingi áður en tilskilinn frestur til að leggja fram þingmál rann út á föstudag.bjorn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×