Viðskipti innlent

Vill sjálfstætt mat á eignum

Gunnar Bragi Sveinsson
Gunnar Bragi Sveinsson
„Öll vonum við að mat skilanefndarinnar sé varlegt, því meira sem kemur inn því meira fer upp í meinta skuld," segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins. „Óvissan um eignasafnið er samt gríðarlega mikil."

Gunnar Bragi lagði ásamt fleiri þingmönnum fram tillögu um að ríkið léti gera sjálfstætt mat á eignasafninu, og fengi til þess virta erlenda sérfræðinga.

„Mér finnst að stjórnvöld, og þar með samninganefndin, hefði átt að láta gera svona mat fyrir löngu," segir Gunnar Bragi. „Það er auðvitað sá hængur á að ríkið hefur ekki beinan aðgang að eignasafninu, og þyrfti því að treysta á góðan vilja skilanefndarinnar."

Tillögunni var vísað til efnahags- og skattanefndar, sem hefur ekki fjallað um málið. Við það er Gunnar Bragi afar ósáttur, enda ljóst að ekki er möguleiki á að lagt verði mat á eignasafnið fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna komandi laugardag. „Ég get ekki skilið það öðruvísi en formaður nefndarinnar hafi ekki haft áhuga á að taka málið fyrir. Hans ábyrgð er þá mjög mikil í málinu, það geta verið tugir eða hundruð milljarða króna í húfi," segir Gunnar Bragi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×