Viðskipti innlent

Fyrirgera ekki rétti sínum

Innan við tuttugu prósent hafa gengið frá umsókn vegna endurútreiknings. fréttablaðið/stefán
Innan við tuttugu prósent hafa gengið frá umsókn vegna endurútreiknings. fréttablaðið/stefán
„Staðreyndin er sú að innan við tuttugu prósent þeirra sem fengið hafa endurútreikning húsnæðislána hafa gengið frá umsókn og sótt ráðgjöf,“ segir Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka.

Í Fréttablaðinu á laugardag var sagt frá því að Íslandsbanki hefði enn ekki skilað útreikningi þriðjungs gengistryggðra húsnæðis- og bílalána þótt mánuður væri liðinn frá því fresturinn rann út. Una segir að þegar búið sé að endurreikna gengislánin verði viðskiptavinurinn að panta sér tíma hjá ráðgjafa til að ljúka málinu. Viðskiptavinir Íslandsbanka sjá endurútreikninginn í heimabanka sínum.

„Við höfum líka verið að hringja í fólk og í mars voru útibúin opin lengur á fimmtudögum.“

Innt eftir ástæðu þess að innan við tuttugu prósent sem fengið hafi endurútreikning hafi gengið frá umsókn segir Una: „Sumir halda að þeir geti fengið betri rétt en við umsóknina. En jafnvel þótt fólk gangi frá lánunum er það ekki búið að fyrirgera rétti sínum.“

Una segir að unnið sé að því að endurútreikna þau lán sem eftir standi en það verk muni taka nokkrar vikur.- mmf






Fleiri fréttir

Sjá meira


×