Viðskipti innlent

Fékk milljarða til kaupa í Glitni

Hæstiréttur Stjórnendur Sunds segjast ekki bundnir af lánasamningum við viðskiptabankana vegna forsendubrests. Fréttablaðið/GVA
Hæstiréttur Stjórnendur Sunds segjast ekki bundnir af lánasamningum við viðskiptabankana vegna forsendubrests. Fréttablaðið/GVA
Hæstiréttur úrskurðaði í síðustu viku að félagið IceProperties skyldi tekið til gjaldþrotaskipta. Félagið er í eigu Sunds, sem nú heitir IceCapital, og er í eigu þeirra Jóns Kristjánssonar, Gabríelu Kristjánsdóttur og Gunnþórunnar Jónsdóttur, ekkju Óla Kr. Sigurðssonar, sem kenndur var við Olís.

Í úrskurði Hæstaréttar segir að Iceproperties hafi fengið í átta skipti í mars og júlí 2008 samtals rúma 7,8 milljarða króna að láni hjá Glitni til kaupa á hlutabréfum bankans. Ekkert hafi verið greitt á gjalddaga í fyrra eða á þessu ári.

Sund og Iceproperties áttu á þessum tíma saman 3,8 prósenta hlut í Glitni. Sund átti jafnframt stóran hlut í VBS Fjárfestingarbanka auk stofnfjárbréfa í Byr sparisjóði og Sparisjóði Keflavíkur og Sparisjóði Vestfirðinga.

Sund tapaði sjö milljörðum króna árið 2009. Heildarskuldir námu tæpum 30 milljörðum og var eigið fé neikvætt um 24,6 milljarða.

Fram kemur í ársreikningi árið 2009 að slitastjórnir og viðsemjendur Sunds hafi reynt að fá stjórnendur til að lýsa félagið gjaldþrota þar sem það geti ekki staðið við skuldbindingar. Ekki hafi verið orðið við því og bera stjórnendur Sunds fyrir sig að félagið sé ekki bundið af lánasamningum vegna forsendubrests. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×