Viðskipti innlent

Fulltrúa ríkisins í stjórn Arion skipt út

Laun æðstu stjórnenda Arion banka og Íslandsbanka hafa sætt gagnrýni undanfarið því þau þykja óhófleg.Fréttablaðið/Pjetur
Laun æðstu stjórnenda Arion banka og Íslandsbanka hafa sætt gagnrýni undanfarið því þau þykja óhófleg.Fréttablaðið/Pjetur
Kristján Jóhannsson, fulltrúi Bankasýslu ríkisins í stjórn Arion banka, mun víkja úr stjórninni á aðalfundi bankans í vikunni. Stjórn Bankasýslunnar telur rétt að endurnýja ekki umboð Kristjáns vegna ákvörðunar hans um að samþykkja launakjör Höskuldar H. Ólafssonar, bankastjóra Arion banka. Kristján þykir þó ekki hafa brotið gegn eigendastefnu ríkisins.

„Mat okkar var, að teknu tilliti til alls, að fulltrúi ríkisins hefði átt að sitja hjá við kosningu um launakjör Höskuldar,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson, stjórnarformaður Bankasýslunnar, og bætir við: „Við erum að fara með hlut í eigu ríkisins og miðað við ástandið í þjóðfélaginu, viðhorf gagnvart fjármálafyrirtækjum og aðgerðir ríkisins til að takmarka hækkanir hærri launa, þá hefði fulltrúi ríkisins átt að sýna aðgæslu í þessu máli.“ Þorsteinn segir Kristján þó ekki hafa brotið gegn eigendastefnu ríkisins og utan þessa máls hafi ríkt sátt um störf Kristjáns.

Kristján, sem er lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, greiddi atkvæði með launakjörum Höskuldar í stjórn Arion banka en launakjör Höskuldar hafa undanfarið verið gagnrýnd fyrir að vera óhófleg.

Til marks um það sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, í kvöldfréttum RÚV á laugardag, að launakjör æðstu stjórnenda bankanna væru kjaftshögg fyrir fólk sem þurft hefði að takast á við atvinnuleysi og launalækkanir á síðustu misserum. Þá lýsti hún yfir vonbrigðum með ákvarðanir stjórnarmanna Bankasýslunnar hjá Arion banka og Íslandsbanka en Kolbrún Jónsdóttir, stjórnarmaður hjá Íslandsbanka, sat hjá við ákvörðun stjórnar um launakjör Birnu Einarsdóttur, bankastjóra.

„Ég harma þessa niðurstöðu. Ekki síst þar sem öll samskipti við Bankasýsluna hafa verið fagleg, opin og góð. Formaður bankasýslunnar sagði að ég hefði ekki brotið gegn eigendastefnu ríkisins. Hann gefur þá einkunn,“ segir Kristján Jóhannsson sem stendur við ákvörðun stjórnarinnar um starfskjör Höskuldar, ýtarleg vinna hafi legið að baki þeirri niðurstöðu.

Stjórn Bankasýslunnar bauð Kristjáni að segja af sér fyrir helgi en hann varð ekki við þeirri beiðni. Í kjölfarið var honum tilkynnt að umboð hans til stjórnarsetu í Arion banka yrði ekki endurnýjað.

magnusl@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×