Viðskipti innlent

Betri heimtur skila ekki lánaleiðréttingu

Nær allt endurmat á lánum Arion banka rann til skilanefndar Kaupþings. Eigendur Íslandsbanka fá ekki arð af fjárfestingu sinni í ár. 
Fréttablaðið/Samsett mynd
Nær allt endurmat á lánum Arion banka rann til skilanefndar Kaupþings. Eigendur Íslandsbanka fá ekki arð af fjárfestingu sinni í ár. Fréttablaðið/Samsett mynd
Endurmat á virði útlána Arion banka og Íslandsbanki nemur samtals tæpum 28,5 milljörðum króna. Það er rúmur helmingur af hagnaði þeirra. Nær öll lánin eru til fyrirtækja sem ekki var gert ráð fyrir að gætu staðið við skuldbindingar sínar þegar nýju bankarnir keyptu eignasöfnin af gömlu bönkunum haustið 2008. Forsvarsmenn bankanna segja hagnaðinn ekki veita þeim rými til að bæta skuldastöðu heimila landsins.

Hagnaður Arion banka af endurmati á virði lána nam 14 milljörðum króna. Þar af renna 12 aftur til gamla bankans, Kaupþings, samkvæmt samkomulagi við skilanefnd og kröfuhafa við kaup og tilfærslu lánasafnsins. Samningar náðust ekki um verð í október árið 2008 þar sem erlendu kröfuhafarnir töldu endurheimtur verða betri en búist var við. Niðurstaðan var sú að ef endurmat á ákveðnum lánum myndi hækka rynni 80 prósent af endurheimtum aftur til skilanefndar. Tveir milljarðar króna sitja því eftir í bankanum nýja. Sambærilegir samningar eru ekki á milli kröfuhafa Glitnis og Íslandsbanka. Þar verður hins vegar ekki greiddur út arður til eigenda í ár.

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður viðskiptanefndar Alþingis, er ein þeirra sem talað hefur fyrir því að nýta hagnað bankanna til að létta á skuldum heimilanna.

Þeir sem rætt hefur verið við segja þetta harla ólíklegt. Helsta forsenda þess að kröfuhafar hafi samþykkt að eignast ráðandi hlut í Arion banka og Íslandsbanka, hafi verið sú að þeir fái arð af þeim.

„Fulltrúar kröfuhafa telja að lánin hafi farið yfir í nýja bankann með of miklum afslætti. Meðal annars á þeirri forsendu ákváðu kröfuhafar að eignast nýja bankann til að draga úr tapi sínu á hinum fallna banka," segir Sigrún Ragna Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslandsbanka.

jonab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×