Viðskipti innlent

300 milljarða hagkerfi í 101

Virðisaukaskattskyld velta fyrirtækja í 101 Reykjavík var liðlega 200 milljarðar króna árið 2010.

 

Þetta er niðurstaða úttektar Ríkisskattstjóra sem Jakob Frímann Magnússon, framkvæmdastjóri Miðborgarinnar okkar, gekkst fyrir. Sambærileg athugun hefur ekki farið fram áður.

 

„Þegar velta fjögurra útibúa fjármálafyrirtækja og útsvar þúsunda íbúa, tryggingargjöld rekstaraðila og fasteignagjöld sömu aðila eru meðtalin er ekki óvarlegt að áætla að velta miðborgarinnar losi 300 milljarða þegar allt er talið,“ segir Jakob, sem vildi með úttektinni undirstrika hlutverk miðborgarinnar og mikilvægi svæðisins til hagkerfisins og ímyndar Íslands.

 

Jakob segir tölfræðina hafa komið nokkuð á óvart en þó ekki þegar haft sé í huga að miðborgin sé fjölsóttasta svæði á Íslandi. „Í þessu samhengi er hægt að segja að það væri í engu ofgert við miðborgina þótt framlög til hreinsunar, öryggisgæslu og viðhalds væru hlutfallslega hærri en nú er. Á það bæði við um borg og ríkisvald.

 

Jakob minnir á að 150 milljónum króna hafi verið varið til að andlitslyftingar miðborgarinnar árið 2008, en bágborið ástand miðborgarinnar var þá þeim tíma mjög til umræðu. „Það er skýrt samband á milli öryggiskenndar fólks hvort gengið er um í hreinu og sæmilega vel til höfðu umhverfi eða hvort allt er í niðurníðslu. Þetta hefur bein áhrif á hvort og hversu lengi fólk vill dvelja á svæðinu og hefur því bein áhrif á verslun og þjónustu. Þeir sem lifa og starfa á svæðinu vilja meiri sýnileika löggæslunnar og það verður að finna leiðir til þess að svara því kalli,“ segir Jakob.

 

Úttekt Ríkisskattstjóra nær til ársins 2010 en 1.641 virðisaukaskattsnúmer er að baki veltu fyrirtækja. Póstnúmerið 101 nær til útflutningsfyrirtækja eins og HB Granda, sem Jakob vill að menn hafi hugfast þegar rýnt er í niðurstöðurnar. „Og umsvifin aukast í sumar þegar nýtt tónlistar- og ráðstefnuhús opnar dyrnar og uppbyggingu í miðbænum lýkur,“ segir Jakob.

 

Jakob minnir á umræðu um bágborið ástand fjölfarinna ferðamannastaða en Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra kynnti um miðjan febrúar að 500 til 700 milljónum yrði varið á þessu ári til úrbóta. „Það fyrsta sem ferðamaðurinn sér af Íslandi er í mörgum tilfellum miðbær Reykjavíkur. Því ræður ásýnd hans miklu um upplifun ferðamanna sem verða 600 þúsund á þessu ári, gangi spár eftir. Þetta verður að hafa hugfast.“ - shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×