Viðskipti innlent

Fyrirtækjum gert erfitt fyrir

Niels Jacobsen, stjórnarformaður Össurar, segir erfitt að reka alþjóðlegt fyrirtæki á Íslandi. Lögum og reglum sé breytt í sífellu og erfitt sé að fá botn í margar breytinganna. Þá flæki gjaldeyrishöftin hlutina verulega. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali Fréttablaðsins við Jacobsen í dag.

Niels Jacobsen er stórmenni í dönsku viðskiptalífi en hann gegnir stöðu forstjóra hjá fyrirtækinu William Demant Holding sem framleiðir heyrnatæki. Auk þess er hann stjórnarformaður leikfangarisans Lego, varaformaður stjórnar flutningafyrirtækisins A.P. Møller Mærsk og stjórnarmaður hjá raftækjaframleiðandanum Sennheiser.

Jacobsen segir að traust erlendra fjárfesta á íslensku viðskiptalífi hafi dregist saman eftir efnahagshrunið. Illa ígrundaðar breytingar á regluverkinu hafi spilað þar stórt hlutverk. Meðal þess sem hann gagnrýnir er breytingar á yfirtökumörkum fyrirtækja úr 40 prósentum í 30 og lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja.

Meirihluti hluthafa Össurar samþykkti á aðalfundi fyrirtækisins í gær tillögu þess efnis að taka félagið af hlutabréfamarkaði hér á landi.

„Það er skylda stjórnarinnar að horfa fram á veginn og við tókum ákvörðun um það að við gætum ekki verið skráð á hlutabréfamarkað sem notar gjaldmiðil sem er ekki nothæfur."

Ekki stendur til að flytja höfuðstöðvar fyrirtækisins, sem eru hér á landi.

- jab, mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×