Viðskipti innlent

Birgjar BMM íhuga mál gegn bóksölum

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson skrifar
Rekstur Bókabúðar Máls og menningar var í kröggum í lok árs 2009. Há húsaleiga er talin hafa sett reksturinn á hliðina. Sömu eigendur eiga húsnæðið og ráku verslunina. Fréttablaðið/Rósa
Rekstur Bókabúðar Máls og menningar var í kröggum í lok árs 2009. Há húsaleiga er talin hafa sett reksturinn á hliðina. Sömu eigendur eiga húsnæðið og ráku verslunina. Fréttablaðið/Rósa
„Ef tap Bókabúðar Máls og menningar [BMM] var svo mikið að ekki var hægt að borga neinum eftir söluna í desember þá var ljóst fyrir löngu að fyrirtækið var gjaldþrota," segir Steinþór Steingrímsson, stjórnarformaður fyrirtækisins Ekki spurning. Fyrirtækið gefur meðal annars út borðspilið Spurt að leikslokum.

Stjórnendur fyrirtækisins íhuga að láta reyna á 64. grein laga um gjaldþrotaskipti. Greinin kveður á um að þeir sem láta hjá líða að leita gjaldþrotaskipta þegar svo er ástatt hjá þeim beri skaðabótaábyrgð gagnvart lánardrottnum. Ákvörðun verður tekin þegar búið verður að gera upp þrotabúið. Skiptastjóri tók við búinu í síðustu viku. Hann hefur ekki tekið saman kröfuhafalista.

„Við munum að sjálfsögðu reyna að stýra því eins vel og við getum að hafa áhrif á virði lagersins og lágmarka tap birgja," segir Jóhannes Sigurðsson, annar eigenda Kaupangs sem rak verslun BMM frá því haustið 2009 þegar Penninn-Eymundson hætti þar rekstri. Kaupangur á jafnframt húsnæðið sem hýsti verslun BMM. Verslunin greiddi húsaleigu til Kaupangs. Hún var nærri tvöfalt hærri en jafnan er í sambærilegu húsnæði við Laugaveg. Jóhannes neitaði að tjá sig að öðru leyti um reksturinn.

Eigendur BMM greindu starfsfólki frá því fyrir hálfum mánuði að reksturinn væri í kröggum og fyrirtækið á leið í þrot. Þetta kom bókaútgefendum á óvart þótt þeir hafi árangurlaust reynt að fá gert upp eftir jólaverslunina. Allir eiga þeir kröfu á þrotabúið nema bókaútgáfan Uppheimar sem krafði BMM um staðgreiðslu. Um vinnureglu var að ræða hjá útgáfunni.

Kristján B. Jónasson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, undrast reyndar að eigendur BMM hafi ekki haft samband við forleggjara þegar þeir sáu hvert stefndi. Slíkt hafi tíðkast um langt skeið. Útgefendur hafi yfirleitt verið reiðubúnir til að koma til móts við bóksala.

Bókaútgefendur og aðrir sem Fréttablaðið hefur rætt við segja tímasetningu gjaldþrotsins einkennilega og benda á að reksturinn hafi farið í þrot skömmu eftir að greiðslukortafyrirtækin gerðu upp eftir jólaverslunina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×