Viðskipti innlent

Áherslan á þjónustu

Þeir Játvarður og Davíð halda ótrauðir inn á fjarskiptamarkaðinn.
Fréttablaðið/Stefán
Þeir Játvarður og Davíð halda ótrauðir inn á fjarskiptamarkaðinn. Fréttablaðið/Stefán
Nýtt fjarskiptafyrirtæki að nafni Hringdu tók til starfa í síðasta mánuði og stefnir að því að bjóða viðskiptavinum sínum upp á ódýrari valkosti í internetþjónustu og heimasíma. Frændurnir Davíð Fannar Gunnarsson og Játvarður Jökull Ingvarsson stofnuðu Hringdu eftir að hafa áður reynt fyrir sér með fyrirtækið callit.is, sem sérhæfir sig í ódýrum símtölum til útlanda.

„Það má segja að hugmyndin að Hringdu hafi sprottið út frá því," segir Játvarður í samtali við Markaðinn. „Við fórum að skoða það verð sem var í boði á markaðnum og sáum að við gætum boðið upp á internet-þjónustu og heimasíma á góðu verði." Hringdu nýtir sér dreifikerfi Símans, en er að öðru leyti óháð öðrum fyrirtækjum á markaðnum.

Játvarður segir að lykillinn að því að lítið fyrirtæki, nýtt á markaði, geti boðið betra verð sé takmörkuð yfirbygging og elja.

„Við vinnum bara fjórir hjá fyrirtækinu eins og er, og erum að fram á öll kvöld. Þannig erum við að láta þetta ganga." Hann segir viðbrögðin hafa komið þeim nokkurn veginn í opna skjöldu og þeir hafi þurft að hafa sig alla við til að sinna viðskiptavinum. „Þetta byrjaði með miklum látum hjá okkur, en við leggjum mikla áherslu á að geta sinnt okkar kúnnum. Það skiptir meira máli að sinna okkar fólki vel heldur en að sprengja sig á kostnað þjónustunnar strax í upphafi." - þj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×