Innlent

Heimta fé af BVS í kjölfar skýrslunnar

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu
Fyrrverandi eigandi meðferðarheimilis sem rekið var á grundvelli þjónustusamnings við Barnaverndarstofu (BVS) hefur sent BVS formlegt erindi í kjölfar þess að Ríkisendurskoðun gaf út skýrslu í síðustu viku um rekstur slíkra heimila. Hann telur að með vísan til þess sem fram komi í skýrslunni sé ljóst að hann hafi verið hlunnfarinn við uppgjör á samningi sínum og krefst þess að honum verði bætt það sem upp á vanti.

Þetta staðfestir Bragi Guðbrandsson, forstjóri BVS. „Við erum þegar búin að fá eitt erindi sem varðar starfslok þar sem óskað er eftir fyrirgreiðslu á grundvelli jafnræðissjónarmiða með vísan til skýrslunnar," segir hann.

Í skýrslunni gagnrýndi Ríkisendurskoðun svokallaðar „sanngirnisbætur" til þriggja heimila, Torfastaða, Árbótar og Götusmiðjunnar. Harðasta gagnrýnin var á greiðsluna til Árbótar, sem ekki var talin nein lagaskylda eða málefnalegar röksemdir fyrir, en hinar voru þó sagðar orka verulega tvímælis.

Alls hefur þjónustusamningum fjórtán sinnum verið rift við rekstraraðila áður en samningstíminn rann út, stundum að frumkvæði þeirra sjálfra, en einungis í framangreind þrjú skipti var samið um uppgjörsgreiðslur.

Bragi segir að í erindinu sé vísað til fordæmisins sem skapast hafi af tilteknum þætti Torfastaðamálsins en hann vill ekki gefa upp hvaða rekstraraðili það er sem sendi erindið. Þá segist hann ekki vita um hversu miklar upphæðir geti verið að ræða, enda séu þær ekki nefndar í erindinu og töluverð vinna gæti verið að reikna þær út.

Bragi segist vita að annað svipað erindi sé á leiðinni, þar sem rekstraraðili telur sig hafa fengið lægri greiðslur en hann átti heimtingu á ef marka megi skýrsluna. „Síðan eru það fyrirspurnir sem ekki hafa leitt til erindis enn sem komið er – innhringingar og menn að skoða sína stöðu og ráðfæra sig við lögmenn," bætir hann við. Ómögulegt sé að segja til um hvort þær verði að formlegum erindum.

„Menn sem hafa áður verið í samstarfi við okkur eru ósáttir. Þeir segja að ef þeir hefðu bara haft vit á að notfæra sér tengsl við stjórnmálamenn til að knýja fram betri úrlausn þá blasi við að þeir hefðu fengið meira í sinn hlut," segir Bragi. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×