Viðskipti innlent

Steiniðjan hefur fest kaup á S.Helgason

S.Helgason ehf. steinsmiðja hefur verið seld Steiniðjunni ehf., fjölskyldufyrirtæki sem stofnað var árið 1972.

Í tilkynningu segir að S.Helgason sé stærsta steinsmiðja landsins. Helstu vörur félagsins eru borðplötur, flísar, legsteinar og ýmis sérsmíði. Félagið hefur komið að byggingu Flugstöðvar Leif Eiríkssonar, húss Hæstaréttar, húss að Lækjargötu 2 og Hörpu - tónlistar- og ráðstefnuhúsi í Reykjavík.

S.Helgason ehf. hefur starfað á sömu kennitölu allt frá stofnun félagsins árið 1953. Félagið hefur verið í eigu SPB hf., áður Sparisjóðabanka Íslands hf., frá því í febrúar 2010.

SPB hf. auglýsti S.Helgason ehf. til sölu með auglýsingu í helstu fjölmiðlum og var söluferill opinn áhugasömum aðilum. Fjölmargir sýndu félaginu áhuga en tilboð Steiniðjunnar ehf. var hagstæðast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×