Viðskipti innlent

Tekjur jólavertíðar tapast í gjaldþrotinu

Lokað! Rétt er að árétta að gjaldþrot Bókabúðar Máls og menningar er alls óviðkomandi bókaútgáfunni sem er undir merkjum Forlagsins.Fréttablaðið/
Lokað! Rétt er að árétta að gjaldþrot Bókabúðar Máls og menningar er alls óviðkomandi bókaútgáfunni sem er undir merkjum Forlagsins.Fréttablaðið/
Bókaútgefendur eru sammála um að gjaldþrot Bókabúðar Máls og menningar (MM) geti haft afar neikvæð áhrif á íslenska bókaútgáfu. Fullyrt er að fjárhagslegt högg útgefenda verði til þess að breyta útgáfu og samskiptum útgefenda og endursöluaðila.

Kristján B. Jónasson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, segir hljóðið þungt í öllum sem komi að bókaútgáfu hér á landi. Enginn hafi gert sér grein fyrir að svo illa væri komið fyrir fyrirtækinu og skilaboð forsvarsmanna MM til útgefenda og starfsfólks hafi verið önnur.

„Greinin samanstendur af mörgum litlum fyrirtækjum sem mega ekki við miklu og þó að gjaldþrot sem þetta virðist smátt í samanburði við margt annað hafa einstök fyrirtæki sennilega tapað umtalsverðum hluta af sinni ársveltu. Það veldur þessum fyrirtækjum alvarlegum búsifjum og vandséð er hvernig menn vinna úr þessu áfalli," segir Kristján.

Kristján telur að gjaldþrot MM muni breyta því hvernig verslað sé með bækur. Það fyrirkomulag sem hér hafi tíðkast sé gengið sér til húðar og menn spyrji sig hvernig skipta eigi við endursöluaðila bóka í framtíðinni, enda sé traustið ekkert lengur.

Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, sem gefur út bækur undir merkjum JPV, Máls og menningar, Vöku-Helgafells og Iðunnar, segir að gjaldþrot Bókabúðar MM sé líklegt til að fækka útgefnum titlum og grafa undan útgáfu metnaðarfyllri ritverka. Hann segir ástæðuna vera að kröfur útgefenda í þrotabúið séu í hámarki svo stuttu eftir jólahátíðina og fáir útgefendur þoli að tapa stórum hluta af jólavertíðinni.

„Þetta getur jafnframt haft áhrif á rithöfunda og höfundarlaun þeirra. Þó að útgefandi beri ábyrgð á áhættu í viðskiptum við verslanir segir það sig sjálft að ef þær standa ekki í skilum getur þeim reynst erfitt að standa skil á launum til rithöfunda. Þetta hefur keðjuverkandi áhrif."

Sigurður Svavarsson, framkvæmdastjóri bókaútgáfunnar Opnu, tekur í sama streng. „Verslun með bækur er í raun umboðssala og ég lít þannig á að við eigum óseldar bækur í versluninni og hyggst ná í þær – með góðu eða illu. Við eldri gjaldþrot hefur hins vegar slíkur lager verið úrskurðaður eign þrotabúanna – slíkur úrskurður myndi tvöfalda tapið hjá okkur. Svo er það tilfinningalegt atriði að sjá niðurlægingu verslunarinnar sem hefur verið ákveðið viðmið í borginni."

svavar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×