Viðskipti innlent

Botninum gæti verið náð í vaxtalækkunnarferlinu

Ingólfur Bender forstöðumaður greiningar Íslandsbanka segir að stóru tíðindin í tilkynningu Peningastefnunefndar um vaxtalækkunina í morgun gætu verið að botninum sé náð í vaxtalækkunnarferlinu að sinni.

Peningastefnunefnd ákvað að lækka vexti Seðlabankans um 0,25 prósentur í morgun. Sérfræðingar áttu hinsvegar von á lækkun upp á 0,5 til 0,75 prósentur. Greining Íslandsbanka sagði þó í Morgunkorni í vikunni að ekki væri útilokað að lækkunin yrði aðeins 0,25 prósentur.

Ingólfur bendir á að úr tilkynningu Peningastefnunefndar sé nú horfin setningin sem kveður á um að ef gengisþróun krónunnar verði áfram hagstæð og verðbólgan lækki sé áfram svigrúm til frekari vaxtalækkanna. Í staðinn er komin setning sem kveður á um að óvissa sé um framvindu vaxtanna.

Í tilkynningunni er þetta orðað svo: „Þar sem horfur eru á að verðbólga verði áfram við verðbólgumarkmiðið og í ljósi þess að vextir eru í sögulegu lágmarki ríkir aukin óvissa um í hvaða átt næstu vaxtabreytingar verða."

Ingólfur segir að þessi setning gefi vísbendingar um að ekki verði um frekari vaxtalækkanir að ræða í bráð.

Fram kemur í máli Ingólfs að lítil vaxtalækkun nú skýrist einkum af óhagstæðri þróun á gengi krónunnar frá síðustu vaxtaákvörðun Peningastefnunefndar eins og fram komi í tilkynningunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×