Viðskipti innlent

Bankarnir hafa svigrúm til að selja gjaldeyri

Afgangur af viðskiptum við útlönd er að skila sér til landsins og því hafa bankarnir svigrúm til að selja gjaldeyri fyrir krónur. Þetta sést m.a. af samningum þeim sem Seðlabankinn gerði við innlend fjármálafyrirtæki í síðasta mánuði um veruleg gjaldeyriskaup.

Fjallað er um málið í Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa. Þar segir að gengi krónunnar veiktist í fyrstu viku ársins og hækkaði gengisvísitalan um 0,21% og endaði í 208,47. Af helstu myntum hækkaði bandaríkjadalur mesti í verði, um 2,23%, kanadadalur 2,13% og sterlingspund um 1,82%. Evra lækkaði hins vegar mest, um 0,69% og dönsk króna um 0,65%.

Í vikunni kom fram að seðlabankinn hafi á liðnu ári átt í viðræðum við innlend fjármálafyrirtæki um aðgerðir til að draga úr gjaldeyrismisræmi í efnahagsreikningum viðkomandi aðila. Bankinn hefur nú opinberað að hann hafa keypt jafnvirði 24,6 milljarða kr. af gjaldeyri og gert framvirka samninga um kaup á um 47,9 milljarða kr. til viðbótar á næstu árum.

Um verulega jákvæðar fréttir er að ræða fyrir báða aðila. Gjaldeyrisforði seðlabankans styrkist nokkuð og efnahagur viðkomandi fjármálastofnana batnar. Einnig er uppsöfnun á gjaldeyri hjá innlendum fjármálafyrirtækjum merki um að afgangur af viðskiptum við útlönd sé að skila sér til landsins.

Ennfremur er líklegt að útflutningsgreinar s.s. sjávarútvegurinn sé að greiða niður erlendar skuldir í bönkunum og því hafi bankarnir svigrúm til að selja gjaldeyri fyrir krónur, að því er segir í Markaðsfréttunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×