Viðskipti innlent

Geta hagnast mikið á aflandskrónum

unnið í bankanum Erlendir fjárfestar gætu fengið háa ávöxtun á þriggja ára tímabili með því að kaupa aflandskrónur og fjárfesta í bréfum Íbúðalánasjóðs.Fréttablaðið/vilhelm
unnið í bankanum Erlendir fjárfestar gætu fengið háa ávöxtun á þriggja ára tímabili með því að kaupa aflandskrónur og fjárfesta í bréfum Íbúðalánasjóðs.Fréttablaðið/vilhelm
Erlendar fjármálastofnanir og fjárfestar geta fengið 66 prósenta ávöxtun á fjárfestingu sína í evrum talið með ákveðnum viðskiptagjörningum með aflandskrónur. Þetta á ekki við um þá erlendu fjárfesta sem festust inni með fjármagn sitt við innleiðingu gjaldeyrishafta fyrir rúmum tveimur árum heldur þá sem keyptu krónur eftir að höftin voru sett.

„Þetta er ímyndað dæmi, en framkvæmanlegt. Erlendir aðilar mega bæði taka út afborgun og vaxtagreiðslur verðtryggðra bréfa útgefinna af Íbúðalánasjóði,“ segir Davíð Stefánsson, sérfræðingur hjá greiningu Arion banka.

Greiningardeildin birti í gær dæmi þar sem gert er ráð fyrir að fjárfestir kaupi fyrst aflands­krónur fyrir 100 evrur og síðan fyrir sömu upphæð skuldabréfaflokk Íbúðalánasjóðs sem er á gjalddaga eftir þrjú ár. Til einföldunar er gert ráð fyrir því að viðskiptin eigi sér stað 16. mars næstkomandi og horft framhjá ávöxtunarkröfu skuldabréfaflokksins. Í hvert sinn sem greiðslur berast selur hann krónurnar á gjaldeyrismarkaði. Það mun skila þeim sem átti eina evru í upphafi 65 evrusenta hagnaði.

Davíð bendir á að í raun liggi litlar upplýsingar fyrir um það hverjir eigi íbúðabréfin. Þá hafi erlendir fjárfestar nær aðallega keypt stutt óverðtryggð ríkisbréf sem eru á gjalddaga á næstu tveimur árum.

„Við bendum aðeins á að við teljum að útlendingar geti keypt þessi bréf til að komast út úr landi og fengið fínan hagnað. Erlendir fjárfestar hafa heimild til að taka féð út, flokkurinn er til staðar og aflandskrónur til. En þeir hafa ekki verið að gera það í miklum mæli að við höldum,“ segir Davíð.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu Stöðvar 2 í vikunni kom fram að um 200 milljarðar aflandskróna liggi inni á svonefndum VOSTRO-reikningum erlendra bankastofnana.

jonab@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×