Viðskipti innlent

Uppstokkun á sparisjóðunum enn í pípunum

Margir sparisjóðir fengu á sig sjó í hruninu. Endurreisnarstarf hefur staðið yfir í rúm tvö ár. Senn styttist í að starfinu ljúki. Búast má við uppstokkun og hagræðingu innan kerfisins.samsett. Mynd/Kristinn
Margir sparisjóðir fengu á sig sjó í hruninu. Endurreisnarstarf hefur staðið yfir í rúm tvö ár. Senn styttist í að starfinu ljúki. Búast má við uppstokkun og hagræðingu innan kerfisins.samsett. Mynd/Kristinn

„Margir sparisjóðir eru mjög laskaðir. En það er mjög misjafnt hvernig þeim hefur reitt af í hruninu. Það er ekki skrýtið, enda enginn á Íslandi, sem hefur verið í svona starfsemi sem ekki hefur látið á sjá," segir Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sparisjóða.

Guðjón segir óvíst hvað björgunaraðgerðir sparisjóðanna muni kosta. Þótt ljóst sé að útlánasöfn þeirra séu illa farin mun endanleg mynd ekki fást af stöðunni fyrr en ljóst verði hvernig viðskiptavinir sparisjóðanna standi.

„Það eru ekki síður áherslur og ákvarðanir stjórnvalda um skuldaaðlögun íbúðareigenda og fyrirtækja sem komið hefur niður á sparisjóðunum. Þar er enginn til að taka tjónið á sig aðrir en þeir sjálfir," segir hann. „Þrýstingur um afskriftir skulda niður að 110 prósenta markaðsverðmæti fasteigna vegur þungt." Hann segir erfitt að átta sig á stöðunni. Viðskiptavinir sparisjóðanna standi misvel eftir landsvæðum og nefnir sem dæmi að íbúar Þórshafnar hafi ekki fundið fyrir uppsveiflunni eins og á höfuðborgarsvæðinu og suðvesturhorninu. Ekki sé útilokað að skuldavandamálin þar séu minni en gert hafi verið ráð fyrir og því gæti kostnaðurinn við skuldaaðlögunina orðið mun minni þar en á suðvesturhorni landsins.



Björgunarlínan send út

Við setningu neyðarlaganna í októ­ber 2008 var veitt heimild til að leggja sparisjóðunum til fjármagn til að fleyta þeim í gegnum þau skakkaföll sem þeir urðu fyrir í hruninu. Framlagið miðaðist við 20 prósent af eigin fé þess sparisjóðs sem eftir því óskaði í lok árs 2007. Þegar þetta var voru tuttugu sjálfstæðir sparisjóðir í landinu með heildareignir upp á tæpa 450 milljarða króna. Gert var ráð fyrir að björgunaraðgerðir gætu kostað ríkið í kringum 20 milljarða króna.

Átta sparisjóðir hugðust nýta sér líflínu hins opinbera og óskuðu eftir framlaginu skömmu eftir áramótin 2009. Fljótlega kom hins vegar í ljós að í flestum tilvikum þurfti meira til en aukið fjármagn. Í kjölfarið tók við vinna að útfærslu á fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðanna. Það fól meðal annars í sér viðræður við kröfuhafa, flesta erlenda. Í nokkrum tilvikum sigldu viðræður í strand með tilheyrandi afleiðingum. Sparisjóðabankinn féll fyrstur - í mars. Það var fyrsti dómínókubburinn í þéttriðnu sparisjóðaneti. Sparisjóðabankinn var heildsölubanki sparisjóðanna og samtímis því helsti kröfuhafi þeirra. Við fall hans fluttust kröfur á hendur sparisjóðunum yfir til Seðlabankans og hefur hann í samstarfi við fjármálaráðuneytið og breska ráðgjafafyrirtækið Oliver Wyman unnið að samkomulagi um endurreisn sparisjóðanna.

Endurskipulagningin til þessa hefur falið í sér að hluta skulda er breytt í eigið fé, víkjandi lán og almenn lán. Stofnfé er afskrifað í mismiklum mæli, stundum nær alveg. Það fer eftir eiginfjárstöðu hvers sparisjóðs og því að hvaða marki varasjóðir þeirra eru neikvæðir. Fram til þessa hafa fimm sparisjóðir sem ekki uppfylltu skilyrði Fjármálaeftirlitsins um lágmark eigin fjár farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu á þessum nótum. Seðlabankinn, sem eignaðist kröfur á hendur þeim í kjölfar falls Sparisjóðabankans breytti skuldum og stofnfé í eigið fé og færði umsjón með eignarhlutnum til Bankasýslu ríkisins.





Mikil fækkun sparisjóða

Sparisjóðirnir voru tuttugu talsins þegar hrunið skall á fyrir rúmum tveimur árum. Þeir eru nú helmingi færri, þar af einungis þrír sem segja má að séu sjálfstæðir. Starfsmenn eru nú rúmlega 220 á rétt rúmlega 40 afgreiðslustöðum víða um land. Bankasýsla ríkisins á hlut í fimm sparisjóðum og tveir heyra undir Arion banka. Þá var Byr sparisjóði breytt í hlutafélag í apríl í fyrra. Óvíst er hvaða örlög bíða SpKef í Keflavík, sem FME tók yfir á sama tíma og Byr. Kröfuhafar stýra í kringum 95 prósenta hlut í Byr í gegnum eignarhaldsfélag þrotabúsins og svo gæti farið að fimm prósenta hlutur í honum renni jafnframt til Bankasýslunnar.

Ríkið hefur fram til þessa lagt 900 milljónir króna til Spkef. Jafnhá upphæð rann til Byrs, sem ekki var endurreistur í formi sparisjóðs. Minni sparisjóðirnir fimm sem að mismiklu leyti hafa lent í fangi Bankasýslu ríkisins fengu ekki beint eiginfjárframlag frá ríkinu heldur var um að ræða afskriftir og umbreytingu á skuldum í hlutafé upp á rúma 1,8 milljarða króna. Ótalin eru víkjandi lán.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins, segir óvíst hvað endurskipulagning sparisjóðakerfisins muni á endanum kosta ríkið. Það muni skýrast þegar endurskoðun á ársreikningi Spkef, stærsta sparisjóði landsins, lýkur. Hann er væntanlegur á næstu vikum. Rætt hefur verið um að ríkið gæti þurft að leggja Spkef til allt frá tólf til tuttugu milljarða króna. Rósa Björk vildi ekki staðfesta slíkar tölur og lagði áherslu á að á meðan ekkert lægi fyrir um stöðu sparisjóðsins gæti hún lítið sagt. „Við viljum ekkert gefa út fyrr en það liggur fyrir svart á hvítu,"segir hún.



Allt undir í endurskipulagningunni
Elín Jónsdóttir

Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslunnar, vill ekkert spá fyrir um hversu mikinn kostnað ríkið gæti þurft að bera vegna Spkef. Hún telur hins vegar líklegt að sparisjóðurinn renni allur til ríkisins og verði hann lokahnykkurinn á endurfjármögnun sparisjóðakerfisins. Hún segir allt undir og útilokar ekki að tveir eða fleiri sparisjóðir verði settir saman í einn, útibúum lokað og leitað frekari leiða til að hagræða í rekstri þeirra.

„Ég tel að rekstrarleg endurskipulagning sparisjóðanna í kjölfarið sé ekki síður mikilvæg. Frá okkar bæjar­dyrum séð eru allir möguleikar til skoðunar, bæði þarf að skoða rekstrarlega hagræðingu innan hvers sparisjóðs, hvert útibú og kanna hvort það borgi sig; það verður að skoða hugsanlega sameiningu tveggja eða fleiri sparisjóða, sameiginlegan rekstur sparisjóðanna, upplýsingatæknifyrirtækið Teris og Samband íslenskra sparisjóða. Þetta eru hinir tveir miðlægu póstar sparisjóðakerfisins. Að okkar mati á ekkert að vera fyrirfram gefið að neitt sé útilokað," segir hún og bendir á að sparisjóðirnir hafi byggt upp kostnaðarsamt kerfi þegar þeir voru sem stærstir og hafi það lítið skroppið saman þótt ytri aðstæður hafi breyst.

Heildareignir sparisjóðanna eru í kringum 140 milljarðar króna sem er sambærilegt og fyrir árið 2001. Þar af reka sparisjóðirnir 33 prósent af öllum bankaútibúum í landinu. Á sama tíma eru þeir með innan við fimm prósenta markaðshlutdeild og fleira starfsfólk en stóru viðskiptabankarnir í hlutfalli við stærð efnahagsreikningsins. „Það gefur auga leið að töluvert mikið þarf að breytast. Allir innviðir og uppbyggingin tekur mið af gömlu kerfi. Það segir sig sjálft að það er dýrt," Elín segir ekki útilokað að einingar verði seldar út úr sparisjóðakerfinu. Á meðal eigna sparisjóðanna er upplýsingatæknifyrirtækið Teris, sem þjónustar fleiri fjármálafyrirtæki. Slíka þjónustu má útvista.

„Það er allt undir. Ég tel að það sé mjög mikilvægt þegar búið verður að setja peninga skattborgara í endurreisn fjármálafyrirtækja að tryggja að þau verði rekstrarhæf til lengri tíma litið. Það verður að skoða með opnum huga hvaða leiðir eru vænlegastar til að tryggja það," segir Elín en bætir við að gæta verði þess við hagræðinguna að horfa á í hverju verðmæti sparisjóðanna liggi.

„Viðskiptamódelið gengur út á nálægð við viðskiptavinina. Þegar við skoðum erlenda banka og sparisjóði - eða minni banka sem vinna staðbundið í öðrum löndum - þá geta þeir sýnt fram á góða rekstrarniðurstöðu því þeir þekkja viðskiptavini sína og eru öruggir í lánveitingum sínum. En auðvitað verður að byggja á styrkleikum sparisjóðanna. Það má ekki eyðileggja það," segir hún.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×