Viðskipti innlent

Hefur áhyggjur af atvinnuleysi

Julie Kozac sendifulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir efnahagsáætlun stjórnvalda á áætlun. Hún hefur áhyggjur af miklu atvinnuleysi.
Julie Kozac sendifulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir efnahagsáætlun stjórnvalda á áætlun. Hún hefur áhyggjur af miklu atvinnuleysi.

Vel hefur tekist til við að draga úr halla á fjárlögum og koma efnahagslífinu á réttan kjöl. Nýtt Icesave-samkomulag er mun hagstæðara en fyrri samningar sem kynntir hafa verið og flýtir fyrir bata efnahagslífsins. Þetta segir Julie Kozack, sendifulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, AGS, hér á landi.

AGS birti skýrslu um framgang efnahagsáætlunar stjórnvalda og sjóðsins í kjölfar fjórðu endurskoðunar áætlunarinnar í gær. Þar kemur fram að efnahagslífið hér sé smám saman að koma út úr djúpri kreppu og megi búast við hagvexti á árinu, þeim fyrsta í á þriðja ár. Helsta áhyggjuefnið er mikið atvinnuleysi. Átta prósenta atvinnuleysi mældist í desember á nýliðnu ári, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar.

Kozac sagði á símafundi frá Washington um það leyti sem skýrslan var birt í gær að efnahagsáætlunin væri á réttri leið. Vel hafi tekist við fjárhagslega endurskipulagningu heimila þótt enn eigi eftir að laga til hjá fyrirtækjum og muni samstarfinu ljúka eins og um var samið í ágústlok.

Seðlabankinn mun á næstunni kynna endurskoðun á afnámi gjaldeyrishafta. Kozac vildi ekki tjá sig um áætlanir áður en þær verða kynntar. Hún benti á að höftin hefðu skilað tilætluðum árangri og það yrði að afnema þau í skrefum. - jab










Fleiri fréttir

Sjá meira


×