Viðskipti innlent

Einkaneyslan rétti vel úr kútnum í árslok

Einkaneysla virðist heldur betur hafa rétt úr kútnum undir lok síðasta árs, ef marka má kortaveltutölur Seðlabankans sem birtar voru í gær. Nam kreditkortavelta í desember síðastliðnum 26,5 milljörðum kr. og var það 4% meiri velta í krónum talið en í mánuðinum á undan.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að miðað við þróun vísitölu neysluverðs og gengisvísitölunnar jókst kreditkortavelta að raungildi um 12,7% milli ára. Þetta er mun meiri raunaukning en sést hefur á milli ára síðan í janúar 2008, en kortavelta dróst mikið saman í kjölfar hrunsins.

Þessi mikla aukning í desember er fyrst og fremst tilkomin vegna mikillar raunaukningar í erlendri kortaveltu á milli ára, en erlend kortavelta jókst um ríflega 47% að raungildi og á sama tíma jókst innlend kreditkortavelta um 7,4%.

Þróun debetkortaveltu bendir í sömu átt. Þannig nam debetkortavelta í innlendum verslunum í desember 25,2 milljörðum kr. og jókst að raungildi um 2,4% frá sama mánuði árið 2009. Samanlagt gefur raunbreyting kreditkortaveltu og debetkortaveltu í innlendum verslunum góða mynd af þróun einkaneyslu hérlendis.

Á þann kvarða jókst kortavelta um 7,5% að raungildi í desember frá sama mánuði árið áður. Er það fimmti mánuðurinn í röð þar sem kortavelta eykst að raungildi milli ára, mælt með þessum hætti. Þá er þetta mesti vöxtur sem sést hefur á þennan mælikvarða síðan í desember 2007.

Kortaveltutölur Seðlabankans voru ekki einu vísbendingarnar sem bárust um þróun einkaneyslu í gær, því þá birti Rannsóknarsetur Verslunarinnar einnig tölur um veltu í smásöluverslun fyrir desembermánuð. Samkvæmt þeim tölum jókst velta í dagvöruverslunum um 1,2% frá sama mánuði fyrra árs á föstu verðlagi, en velta í dagvöruverslunum á þennan mælikvarða hefur nú aukist undanfarna tvo mánuði og sýnir því batamerki.

Þá er velta í verslun með raftæki einnig að aukast frá sama tíma fyrra árs, en velta í raftækjaverslunum var í desember síðastliðnum 18,5% meiri en í sama mánuði árið 2009. Velta í raftækjaverslun hefur nú aukist á þennan mælikvarða samfellt undanfarna 7 mánuði og hefur frá því í apríl síðastliðnum rúmlega tvöfaldast.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×