Handbolti

Arnór: Komnir í draumastöðu

Henry Birgir Gunnarsson í Cloetta Center skrifar

Arnór Atlason sagði nauðsynlegt fyrir liðið að komast aftur niður á jörðina þó svo liðið væri eðlilega hátt uppi eftir sigurinn frábæra á Noregi.

"Þetta fær fjórtán á skalanum einn til tíu. Það var alltaf markmiðið að vinna þennan riðil með fullu húsi. Við erum búnir að koma okkur í draumastöðu og það tekur enginn frá okkur að við erum búnir að gera frábæra hluti á þessu móti. Mótið er samt aðeins hálfnað.

"Leiðin núna í undanúrslitin er ekki löng og við vitum allir hvað þarf að gera. Við erum hátt uppi núna og við verðum að koma okkur strax aftur niður á jörðina," sagði Arnór en liðið heldur á morgun til Jönköping þar sem milliriðillinn fer fram. Arnór segir að það verði gott að komast í nýtt umhverfi.

"Þetta voru miklu meira en tvö stig og nú erum við með fjögur stig í milliriðil," sagði Arnór sveittur enda leikurinn harður.

"Þetta var ótrúlegt. Ég man ekki eftir að hafa tekið þátt í svona hörðum leik. Þetta var gríðarleg barátta og þvílík stemning hjá okkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×