Viðskipti innlent

Íhuga fyrsta alþjóðlega skuldabréfaútboðið eftir hrun

Íslensk stjórnvöld íhuga nú fyrsta útboð eftir hrunið á skuldabréfum á alþjóðlegum mörkuðum. Bæði Reuters og Bloomberg fjalla um málið í dag.

Á Bloomberg er rætt við Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra sem segir að efnahagsbatinn á Íslandi og lækkandi skuldatryggingaálag sýni að Ísland sé orðinn öruggur fjárfestingakostur fyrir erlenda fjárfesta.

Á Reuters er haft eftir Stefáni Jóhann Stefánssyni ritstjóra Seðlabankans að bankinn sé að vega og meta málið en að engin ákvörðun liggi enn fyrir.

Steingrímur segir að hagvöxtur sé framundan á Íslandi og því sé tími til kominn að íhuga alvarlega að hugsa sér til hreyfings á alþjóðlegum mörkuðum.

"Þróunin til lengri tíma hefur verið mjög jákvæð og CDS (skuldatryggingaálag innsk. blm.) á Íslandi er núna lægra eða um það bil svipað og það var nokkru fyrir bankakreppuna," segir Steingrímur.

Stefán Jóhann segir að þeir muni taka ákvörðun um útboðið eftir að mati á aðstæðum er lokið af hálfu Seðlabankans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×